Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Forstjóri Landsvirkjunar: Þurfum að standa í lappirnar

24.02.2020 - 21:21
Mynd: RÚV / RÚV
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, telur rétt að Rio Tinto, sem rekur álverið í Straumsvík, sýni fram á að hátt raforkuverð sé ástæðan fyrir rekstrarerfiðleikum álversins með því að birta reikninga fyrirtækisins.

Rio Tinto tilkynnti á dögunum að vegna ósamkeppnishæfs orkuverðs og lágs verðs á áli komi til greina að loka álverinu í Straumsvík. Hörður segir að hann telji ólíklegt að fyrirtækið beiti sjálfa sig eins mikilli hörku í samningaviðræðum og þeir beita Landsvirkjun. Þar vísar hann til þess að fyrirtækið kaupir hráefni innan eigin samsteypu. Þetta kom fram í Kastljósi kvöldsins.

„Það er mikilvægt, þegar þetta er skoðað, að hafa í huga að fyrirtækið er að kaupa mikið af sínum hrávörum innan samstæðunnar og ræður þar verðlagningunni,“ segir Hörður. „Og ég efast um að það sé beitt jafn harðri samningatækni innan samstæðunnar og þeir vilja beita okkur.“  

Landsvirkjun hefur óskað formlega eftir því við Rio Tinto, eiganda álversins í Straumsvík, að trúnaðarákvæðum verði aflétt af rafmagnssamningi fyrirtækjanna þannig að hægt verði að ræða opinberlega um meginefni samningsins.

Hörður segir skorta gagnsæi svo að hægt sé að meta fullyrðingar fyrirtækisins um að raforkuverð sé að sliga reksturinn. „Við höfum sagt það að við viljum fá að sjá þessar tölur, þeir eru að kaupa bæði súrál og rafskaut af sjálfum sér,“ segir Hörður. „Og ég dreg í efa að það sé notuð jafn hörð samningatækni notuð innan samstæðunnar og er notuð á raforkufyrirtæki í eigu íslensku þjóðarinnar.“

Hann segir eitt mikilvægasta verkefni Landsvirkjunar að halda utan um auðlindir landsins. „Við þurfum að standa í lappirnar þegar við erum að semja við þessi fyrirtæki.“

Hörður tekur fram að hann sé ekki að ásaka fyrirtækið um að aðhafast neitt ólöglegt. „Öll alþjóðleg fyrirtæki geta stýrt því hvar hagnaðurinn lendir.“