Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Forstjóri Haga: „Ekki við okkur að sakast“

01.02.2016 - 20:20
Mynd: Kastljós / RÚV
Finnur Árnason forstjóri Haga segir það rétt að sterkara gengi hafi ekki skilað sér í lægra verði til neytenda. Hagar beri þó ekki ábyrgð. Rætt var við hann í Kastljósi í kvöld. Finnur vill þó ekki segja hvaða fyrirtæki hafi snuðað neytendur um ávinninginn en telur að Bændasamtökin mættu líta sér nær. Það sé ekki óeðlilegt að hagnaðarhlutföll séu helmingi hærri hjá Högum en næsta samkeppnisaðila.

Finnur var gestur Kastljóss í kvöld og rætti þar nýja skýrslu Bændasamtakanna um matvöruverð, búvörusamninga, samkeppnismál, gagnrýni á laun hans og stjórnenda Haga og mikinn hagnað heildsölufyrirtækisins Banana sem Hagar eiga en fyrirtækið ræður yfir allt að 60 prósent af heildsölumarkaði með ávexti, grænmeti og kartöflur á Íslandi. Hagar hafa á síðustu fjórum árum fengið hátt í fimm milljarða í arð út úr því fyrirtæki, en velta þess er milli 7 og 8 milljarðar króna á ári.