Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Forstjórar og sérfræðingar stefna á tunglþorp

13.09.2019 - 23:02
Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV/Landinn
Samtökin Open Lunar stefna á að byggja þorp á tunglinu á næstu árum. Forstjórar tæknifyrirtækja úr Kísildalnum, verktakar, sérfræðingar og fólk með með tengsl við bandarísku geimvísindastofnunina NASA, er meðal meðlima í samtökunum.

Forsvarsmenn samtakanna telja að ætlunarverkið, lítið tunglþorp, þurfi ekki að kosta meira en um tvær til fimm billjónir Bandaríkjadala. Þá telja þau ekki ólíklegt að það fjármagn fáist þrátt fyrir að samtökin séu ekki rekin í gróðaskyni. DV greindi fyrst frá. 

Tunglþorpið verði friðsælt samstarfsverkefni

Vonin er sú að þorpið verði ekki ríkis- eða einkarekið, og tilheyri ekki einhverju ákveðnu ríki eða fjárfesti, heldur verði samstarfsverkefni.

Helsta markmiðið með verkefninu er að koma á fót friðsælli borgaralegri nýlendu á tunglinu þar sem samvinna er höfð að leiðarljósi, sagði Chelsea Robinson einn stjórnenda samtakanna. 

Ekki útilokað að ætlunarverkið takist

Í frétt frá fréttaveitunni Bloomberg kom fram að ekki væri útilokað að samtökunum tækist ætlunarverk sitt. Margir meðlimir samtakanna búi yfir sérfræðiþekkingu í geimvísindamálum, verkfræði og hugbúnaðarþróun. Aðrir meðlimir eiga eða hafa aðgang að umtalsverðu fjármagni. Þá hefur einn meðlimanna komið að stefnugerð í geimmálum og verið ráðgjafi hjá Sameinuðu þjóðunum í þeim efnum. 

Á undanförnum átján mánuðum hafa þessir aðilar fundað um hver næstu skref verkefnisins ættu að vera. Meðal annars hafa samtökin ráðið kerfisfræðinga og forritara í fulla vinnu.