Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Forsetinn megi sýna meiri auðmýkt

13.09.2015 - 13:11
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Elín Hirst þingmaður Sjálfstæðisflokks segir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands mætti sýna meiri auðmýkt, og biðlar til fyrri tíma stjórnmálamanna að leyfa þingmönnum að starfa í friði. Orðunum beinir Elín einkum til Davíðs Oddsonar, auk forsetans.

Elín tjáir sig um þetta á Facebook. Þar segir hún að sér finnist skorta að forsetinn, þrátt fyrir ágæti og dugnað, sýni aðeins meiri auðmýkt. Einnig biður hún stjórnmálamenn fyrri tíma, eins og hann og fleiri, „að láta okkar góðu leiðtoga í friði“. Elín segir að nú séu nýir tímar og ný viðhorf sem þeir skynji því miður ekki nógu vel. Með færslunni birtir Elín mynd af forsetanum og Davíð Oddssyni, ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra.

Mér finnst skorta á að forsetinn okkar ágæti og duglegi sýni aðeins meiri auðmýkt. Einnig bið ég stjórnmálamenn fyrri tí...

Posted by Elin Hirst on Sunday, September 13, 2015

Elín vakti fyrst máls á þessu í gærdag, þegar hún sagðist sammála fræðimönnum sem segja ekki andlýðræðislegt að kjósa samtímis til embættis forseta Íslands og um breytingar á stjórnarskránni, líkt og forsetinn hélt fram í þingsetningarræðu sinni á mánudag.

Ekki er ljóst hvers vegna Elín beinir orðum sínum til Davíðs Oddssonar sérstaklega.

Í síðustu viku gagnrýndi Elín á Facebook skopmynd Morgunblaðsins sem sýndi sökkvandi skip með flóttamenn innanborðs, og sagði myndina „ósmekklega“. Elín hefur ítrekað lýst yfir vilja til að taka á móti auknum fjölda flóttamanna.

Tjáningarfrelsi er það besta sem til er því að það þýðir einmitt frelsi til að segja hug sinn. Mín skoðun er; þessi mynd er afar ósmekkleg..

Posted by Elin Hirst on Wednesday, September 2, 2015

 

Í Reykjavíkurbréfi helgarblaðs Morgunblaðsins skrifar ritstjórinn um skoðanakannanir og þingflokkana. Þar segir hann meðal annars að „þeim sem komast ekki hjá því að fylgjast dálítið með því sem er að gerast á þinginu þykir að risið á umræðu og raunar tilburðum þar hafi aldrei legið lægra en það gerir nú,“ og tengir það reynsluleysi þingmanna. „Margir þeirra þingmanna sem almenningur man ekki hvað heita héldu að gallabuxur og bindisleysi væri allra þjóðarmeina bót.“ Elín flutti sem kunnugt er ræðu á Alþingi um klæðaburð og gallabuxur, skömmu eftir að hún settist á þing.

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV