Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Forsetinn les fyrir fálkann Kríu

28.12.2019 - 18:26
Innlent · fálki · Fuglalíf · Fuglar · Náttúra
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Grútarblautum og hröktum ungum fálka var bjargað úr klóm svangra hrafna á túninu á Bessastöðum á öðrum degi jóla. Fálkinn, sem hefur fengið nafnið Kría, dvelur í góðu yfirlæti og hefur fengið hreindýrshjarta og -lifur að gæða sér á. Þá les forsetinn fyrir fuglinn.

Forsetinn hefur heimsótt fálkann Kríu daglega frá því henni var bjargað og komið fyrir í litlu gróðurhúsi bjargvættar síns Friðbjörns Möller sem er umsjónarmaður bygginganna á Bessastöðum.

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV

„Hann er aufúsugestur eða hún því þetta er kvenfugl. Sást hér á túninu kaldur og hrakinn fálki á annan í jólum og hrafnarnir við það að gera sér leik að kroppa í hann. Fálkinn er allur að koma til og orðinn miklu hressari. Búinn að gæða sér hér á alls kyns kræsingum: svartfuglsbringu, hreindýrshjarta, hreindýrslifur. Að mati sérfræðinga frá Náttúrufræðistofnun, Ólafs Nielsens, lítur þetta allt saman vel út er mér sagt,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. 

Svo spök er hún Kría að hún þiggur kjötbita, lambalifur, úr lófa. Og ekki fúlsaði hún við bitanum þótt forvitinn fréttamaður rétti henni hann. En það eru takmörk fyrir öllu og að lokum þótti fuglinum nóg um.

Og þessi fugl sýnir hún forseta Íslands tilhlýðilega virðingu?

„Ég sé ekki betur. Við umgöngumst hvort annað af virðingu og ákveðinni varúð,“ segir Guðni. 

 

Mynd: Þór Ægisson / RÚV

En fálkar eru engin nýlunda á Bessastöðum.

„Fálkar voru fangaðir víða um land og fluttir til Bessastaða. Hér var sérstakt fálkahús a.m.k. frá því á sautjándu öld og vel fram á 18. Fálkar voru mikið gersemi. Það voru kóngar, prinsar, furstar, keisarar og hertogarar og alls kyns aðalslið í Evrópu sem sóttist eftir að fá fálka frá Íslandi. Íslenskir fálkar þóttu allra fálka bestir,“ segir Guðni. 

Og Guðni hefur dregið fram gamla bók þar þessu er líst og því hvernig best þótti að fanga fálka með því að egna fyrir hann bráð og nota háf.

 

Mynd: Þór Ægisson / RÚV