Forsetinn frábiður sér afskipti

09.05.2011 - 11:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Ólafur Ragnar Grímsson forseti frábað sér afskipti forsætisráðuneytisins af því að settar yrðu siðareglur fyrir forsetaembættið. Hann virðist hafa álitið slíkt rakalausa tilraun til íhlutunar í samskipti forsetaembættis og Alþingis.

Hart hefur verið deilt á forseta fyrir framgöngu hans á árunum fyrir hrun. Höfundar siðferðishlutans í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis lögðu til að siðareglur yrðu settar fyrir forseta, sem og raunar ráðherra og þingmenn. Ráðherrar fengu sínar siðaregur fyrr á þessu ári og í frumvarpi að nýjum þingskaparlögum er gert ráð fyrir siðareglum þingmanna. Ekkert bólar hins vegar á siðareglum forseta.


Nokkur bréf fóru á milli forsætisráðuneytis og forsetaskrifstofu í fyrra þar sem ráðuneytið forvitnaðist um stöðu mála. Svo virðist sem þau bréfaskrif hafi ekki verið forseta að skapi. Í svarbréfi Jóhönnu Sigurðardóttir, sem birt er á vef Eyjunnar, kemur í það minnsta fram að í bréfi forseta hafi verið sagt að skrifin væru „rakalaus tilraun til íhlutunar í samskipti forsetaembættisins og Alþingis“. Forsætisráðherra ber þær sakir af sér og segist fagna því að komin séu á samskipti milli forsetaembættis og Alþingis um málið. Þar með lauk málinu af hálfu ráðuneytisins. Engar heimildir eru hins vegar til á Alþingi um samskipti Alþingis og forsetaembættisins um setningu hugsanlegra siðareglna fyrir forsetaembættið, í það minnsta hvorki við forseta Alþingis né þingmannanefndina sem fór yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi