Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Forsetinn á að vera hvunndagsmanneskja

Mynd: Rebekka Blöndal / Morgunvaktin
„Auðvitað er það hið besta mál að einhverstaðar sé manneskja sem við getum öll litið upp til og að hún sé svo hryllilega vel kostum búin að við getum varla andað í návist hennar. En það er ekkert hollt. Ég held að forseti Íslands ætti að vera venjuleg manneskja sem getur talað við fólk.“ Þetta sagði Elísabet Jökulsdóttir, forsetaframbjóðandi á Morgunvaktinni á Rás 1.

Elísabet Jökulsdóttir sagði að það verði að vera jafnrétti í þessu landi. Hún vill fá pilsaþyt 18 kvenna á Bessastöðum. „Ég myndi hafa 18 konur sem forseta. Þær væru alltaf í kjól og það væri alltaf pilsaþytur og þær væru alltaf rosalega vel málaðar. Ég myndi hafa þennan hóp til þess að sinna málefnum fólksins í landinu.“

Elísabet er hugað um íslenska náttúru og segist vera á móti stjóriðju. „Það eru aðrar leiðir. Það er ferðamannaniðnaðurinn, tónlistin og fólkið sjálft sem er auðlind. Við þurfum ekki að fara svona með landið. Það er glæpur hvernig hægt er að taka land og fara með það eins og einhverjum ákveðnum mönnum sýnist.“

Þriðjudaginn 31. maí, kemur Guðrún Margrét Pálsdóttir á Morgunvaktina.