Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Forseti aðhefst ekki vegna skýrslu á ensku

01.04.2015 - 11:28
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, segir að þar sem skýrsla Frosta Sigurjónssonar um stjórn peningamála hafi verið skrifuð fyrir forsætisráðuneytið en ekki þingið sé ekki ástæða fyrir Alþingi til að bregðast við. Íslensk málnefnd segir óhæfu að skýrslan sé á ensku en ekki íslensku.

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahagsnefndar Alþingis, kynnti í gær 112 blaðsiðna skýrslu sína þar sem hann fór yfir stjórn peningamála. Þar segir meðal annars að bankarnir hafi ráðið of miklu um peningamagn í umferð og Frosti leggur til að Seðlabankanum verði fært aukið vald að þessu leyti. 

Það hefur vakið athygli að skýrsla Frosta er á ensku, en henni fylgir samantekt á íslensku. Frosti sagði í samtali við fréttastofu í gær að þetta væri vegna þess að hann hefði verið í miklum samskiptum við erlenda sérfræðinga meðan á rannsókn hans stóð. Því hefði verið heppilegra að hafa skýrsluna á ensku. Sjálfur hefði hann viljað að hún yrði öll þýdd á íslensku en ekki hefði gefist tími til þess.

Íslensk málnefnd ritaði forseta Alþingis bréf vegna skýrslunnar og sagði það óhæfu að skrifa hana á ensku. Varaformaður nefndarinnar sagði í viðtali við RÚV í gær að skrifin væru alls ekki í samræmi við lög um stöðu íslenskrar tungu. Þar er tekið fram að íslenska sé mál Alþingis, dómstóla og stjórnvalda.

Ekki skýrsla til Alþingis
„Þetta er ekki skýrsla til Alþingis þannig að í sjálfu sér tel ég nú ekki að það sé ástæða fyrir Alþingi að bregðast við þessu með einum eða öðrum hætti,“ segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. „Ef um væri að ræða skýrslu til Alþingis væri hún að sjálfsögðu á íslensku því þingmálið er íslenska. Ég tjái mig ekki að öðru leyti um þessa skýrslu gagnvart forsætisráðuneytinu þar sem þetta er fyrst og fremst á forræði skýrsluhöfundar sjálfs. Þó um sé að ræða þingmann hefur hann fullar heimildir til að vinna sín verk með þeim hætti sem hann kýs.“

Aðspurður hvort ekki væri heppilegra að þingmaður skrifaði skýrslu sem þessa á íslensku, í ljósi laga frá Alþingi um stöðu íslensku tungunnar og íslenska táknmálsins svarar Einar:  „Almennt auðvitað er það þannig að þegar um er að ræða skýrslur til notkunar í stjórnsýslunni eða annars staðar er auðvitað eðlilegast að slíkar skýrslur séu á íslensku. Eftir því sem ég hef skilið þá fylgir þessari skýrslu íslenskur útdráttur. Almenna reglan hlýtur að vera sú að þetta sé á íslensku og ef einhver önnur rök standa til þess að það sé gert með öðrum hætti verða þau að koma skýrt fram. Hvað Alþingi varðar er það þannig að okkar þingmál íslenska og okkar skýrslur á íslensku en okkur berast gögn á erlendum tungumálum, af ýmsum ástæðum, meðal annars frá erlendum sérfræðingum.“