Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Forsetar þverneita ásökunum um mútuþægni

epa07162819 Police patrol in front of the United States District Court for the Eastern District of New York where the trial of Joaquin 'El Chapo' Guzman begins today in Brooklyn, New York, USA, 13 November 2018. Guzman is facing multiple charges
Dómshússins í Brooklyn í New York, þar sem réttað er yfir Guzman og vitorðsmanni hans, Mayo Zambada, er vandlega gætt af fjölda vopnaðra lögreglumanna, jafnt innan dyra sem utan.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Fyrrverandi og núverandi forsetar Mexíkós, þeir Felipe Calderon og Enrique Pena Nieto, vísa báðir á bug fullyrðingum um að þeir hafi þegið mútur úr hendi hins alræmda glæpaforingja Joaquin Guzman, sem iðulega er nefndur „El Chapo" eða „Sá Stutti."

Einn verjenda hans hélt því fram fyrir rétti í New York, þar sem verið er að rétta í máli glæpaforingjans, að Guzman sé ekki og hafi aldrei verið foringi glæpagengis. Hann hafi einungis verið aðstoðarmaður Mayos Zambada sem einnig er fyrir rétti í New York, ákærður um aðild að glæpum Guzmans. Verjandi Guzmans segir Zambada í raun hafa ráðið öllu, og að Sá Stutti og menn hans hefðu borið fé á fjölda manns á æðstu stöðum um árabil að hans undirlagi, þar á meðal þessa tvo forseta Mexíkós.  

Calderon vísar þessum ásökunum á bug í twitter-færslu, segir þær hvort tveggja upplognar og glannalegar. Ritari núverandi forseta, Enrique Pena Nieto, sendi frá sér tilkynningu á twitter þar sem ásakanir lögmannsins eru sagðar fullkomlega rangar og ærumeiðandi. Ríkisstjórn Nietos hafi elt uppi, handsamað og framselt glæpamanninn Joaquin Guzman, en ekki þegið eitt eða neitt úr hans hendi. 

Saksóknarar í málinu segjast vera með sönnunargögn sem tengja Guzmán við 33 morð og smygl á yfir tvö hundruð tonnum af fíkniefnum til Bandaríkjanna, auk mannrána, umfangsmikils peningaþvættis og fleiri glæpa. Hann var handtekinn fyrir tveimur árum en hafði þá verið á flótta í nokkra mánuði eftir að hann strauk úr fangelsi í Mexíkó. Hann var síðar framseldur til Bandaríkjanna. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV