Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Forsetafrúin fer til Moskvu á kostnað ríkisins

15.06.2018 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: Forsetaembættið
Forsetafrúin, Eliza Reid, fer til Rússlands á leik Íslands gegn Argentínu á kostnað íslenska ríkisisins. Ákveðið var að hvorki forsetinn né ráðherrar ríkisstjórnarinnar færu á mótið, sem þáttur í aðgerðum vestrænna ríkja vegna efnavopnaárásar Rússa. Eliza verður því að líkindum eina opinbera persónan sem fer á vegum ríkisins til Rússlands.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sagðist í samtali við Morgunútvarpið í morgun ekki hafa viljað lítillækka ríkisstjórnina og meirihlutavilja Alþingis með því að mæta á leiki Íslands á HM í Rússlandi. Forsetafrúin, Eliza Reid, verður aftur á móti viðstödd leikinn í Moskvu á morgun. Ferðin er greidd af forsetaembættinu.

Vegna versnandi samskipta Rússlands og vestrænna ríkja ákvað ríkisstjórnin að ráðamenn þjóðarinnar væru ekki viðstaddir á heimsmeistaramótinu. Forsetinn fer því ekki á neinn leik í Rússlandi. Í samtali við Morgunútvarpið á Rás tvö í morgun sagði Guðni að það væri hægt að sýna íslenska liðinu stuðning með öðrum hætti. „Maður gerir það ekkert að gamni sínu að lítillæka ríkisstjórn og meirihlutavilja Alþingis, þannig að það lítur ekki út fyrir að ég sjálfur fari út,“ segir Guðni. „Þá finnur maður bara aðrar leiðir til þess að styðja liðið sitt, það er hægt að gera það hérna heima, og Eliza, konan mín, hún fer út og verður á vellinum á morgun og með þeim táknræna hætti er hægt að sýna að við tvö styðjum liðið út í eitt.“

Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir forsetaritari að Eliza fari ekki til Rússlands í opinberum erindagjörðum og hún muni ekki eiga fundi með þarlendum ráðamönnum. Ferð hennar falli hins vegar undir verkefni hennar og verksvið sem forsetafrú. För hennar sé því greidd af skrifstofu forseta Íslands. Tveir eldri synir forsetahjónanna fara aftur á móti á kostnað þeirra hjóna.