Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Forsætisráðuneytið kemur að hönnun bygginga

21.01.2016 - 15:42
Hafnartorg. Byggingarreitur við Tollhúsið þar sem Landstólpi þróunarfélag reisir íbúðarhús og skrifstofu- og verslunarhúsnæði.
Hafnartorg. Byggingarreitur við Tollhúsið þar sem Landstólpi þróunarfélag reisir íbúðarhús og skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Mynd: ruv
Stjórnarráði Íslands hefur verið boðið að leigja allt skrifstofuhúsnæði á reit 2 á Austurbakka 2 í Reykjavík. Landstólpi þróunarfélag, sem hefur yfir lóðinni að ráða, hefur um leið boðist til að taka hönnun bygginga á reitnum til endurskoðunar í samráði við forsætisráðuneytið.

Markmið þeirrar endurskoðunar verður að byggingarnar falli að þörfum ráðuneyta Stjórnarráðsins, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Stefnt er að því að niðurstaða liggi fyrir ekki síðar en 12. febrúar.

Nokkuð hefur verið deilt um fyrirhugaðar framkvæmdir við Austurbakka í Reykjavík. hafnargarður sem fannst á lóðinni við Austurbakka 2, var friðlýstur í október, að tillögu Minjastofnunar Íslands. Þá hefur forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, gagnrýnt fyrirhugaða uppbygging á svæðinu. Fyrr í mánuðinum sagði hann í viðtali við Morgunblaðið um hugmyndir Landstólpa að uppbyggingu á svokölluðu Hafnartorgi, að ef byggt verði með þeim hætti sem dregið hafi verið upp, „yrði það líklega seinna álitið mesta skipulagsslys í miðbæ Reykjavíkur í seinni tíð og jafnvel alla tíð.“