Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Forsætisráðherrar Norðurlandanna funda í dag

20.08.2019 - 06:45
Iceland's Prime Minister Katrin Jakobsdottir, right, meets with German Chancellor Angela Merkel at Thingvellir National Park, about 40km from Reykjavik in Iceland, Monday Aug. 19, 2019. Merkel met with Jakobsdottir on Monday ahead of a meeting with Nordic leaders in Reykjavik on Tuesday. (AP Photo/Egill Bjarnason)
 Mynd: AP Images - RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, heldur í dag áfram fundarhöldum með forsætisráðherrum hinna Norðurlandanna og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Fundarhöldin hefjast á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna ásamt Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi í Hörpu og í framhaldinu eiga þeir síðan fund með norrænum stórfyrirtækjum. Eftir hádegi verður síðan blaðamannafundur með forsætisráðherrum Norðurlanda og kanslara Þýskalands í Viðey þar sem leiðtogarnir flytja stutt ávörp og svara spurningum.

Katrín og Merkel áttu tvíhliðafund á Þingvöllum í gær og ávörpuðu síðan blaðamenn að lokinni göngu um Almannagjá.  Þar sagði Merkel að hana hefði lengi langað að koma til Íslands.  Hún hrósaði Katrínu og sagði hana hugrakkan forsætisráðherra sem hugsaði til framtíðar. Hún hrósaði jafnframt íslenskum stjórnvöldum fyrir metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og sagði Þjóðverja geta tekið sér Íslendinga til fyrirmyndar í jafnréttismálum. 

Katrín sagði að víða um Evrópu hefði vegur þjóðernissinnaðra og popúlískra afla aukist og Norðurlöndin ekki farið varhluta af þeirri þróun. „Það er mikilvægt að stjórnmálin og stjórnmálamenn – hvar í flokki sem þeir standa – ræði þessa þróun og afleiðingar hennar fyrir samfélagið, lýðræðið, mannréttindi og réttindi kvenna og minnihlutahópa.“