
Katrín og Merkel áttu tvíhliðafund á Þingvöllum í gær og ávörpuðu síðan blaðamenn að lokinni göngu um Almannagjá. Þar sagði Merkel að hana hefði lengi langað að koma til Íslands. Hún hrósaði Katrínu og sagði hana hugrakkan forsætisráðherra sem hugsaði til framtíðar. Hún hrósaði jafnframt íslenskum stjórnvöldum fyrir metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og sagði Þjóðverja geta tekið sér Íslendinga til fyrirmyndar í jafnréttismálum.
Katrín sagði að víða um Evrópu hefði vegur þjóðernissinnaðra og popúlískra afla aukist og Norðurlöndin ekki farið varhluta af þeirri þróun. „Það er mikilvægt að stjórnmálin og stjórnmálamenn – hvar í flokki sem þeir standa – ræði þessa þróun og afleiðingar hennar fyrir samfélagið, lýðræðið, mannréttindi og réttindi kvenna og minnihlutahópa.“