Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Forsætisráðherra: Kosningar verða í haust

15.04.2016 - 18:35
Mynd: RÚV / RÚV
Forsætisráðherra segir engan vafa að kosningar verði í haust. Dagsetning fari eftir hvernig gangi að afgreiða forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Hann segir lykilþátt að hafa gott samstarf við stjórnarandstöðuna og reyna að auka traust milli manna.

Slétt vika er í dag síðan ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar stóð af sér vantraust, á fyrsta starfsdegi. Fundur ríkisstjórnarinnar í morgun stóð í meira en þrjár klukkustundir enda verkefnalistinn langur. Ganga þarf frá lista yfir þau mál sem ríkisstjórnin setur í forgang að afgreiða áður en hægt sé að ganga til kosninga.

„Það eru auðvitað mál sem tengjast afnámi hafta, heilbrigðismálum ekki síst húsnæðismálunum, síðan eru fjölmörg mál og það eru einhver mál sem tengjast þessum málum sem að ekki eru komin fram ennþá.“

Forsætis- og fjármálaráðherra munu funda með forseta Alþingis eftir helgi til að ræða þingstörfin framundan enda ljóst að taka þurfi upp starfsáætlun þingsins. Síðan verði samtalið tekið við stjórnarandstöðuna. Forsætisráðherra segir lykilþátt að hafa gott samstarf við stjórnarandstöðuna. Stjórnvöld hafi mörg síðustu ár átt í ákveðnu basli við að vinna sér traust almennings.

„Ég tel nauðsynlegt að við snúum bökum saman og reynum að auka það traust.“

Forsætisráðherra segir, líkt og fjármálaráðherra hefur sagt, stefnt að kosningum með haustinu en það sé háð því hvernig gangi að klára mál í þinginu. En er efi í huga forystumanna ríkisstjórnarinnar um að kosningar verði í haust? „Nei,“ segir forsætisráðherra. Spurður hvort þær verði í september eða október segist hann ekki geta sagt til um það. Það fari eftir því hvernig málin gangi í þinginu.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV