Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Forngripir, skeifur og perlur í nýjar hendur

01.12.2017 - 14:31
Mynd: RÚV / Þór Ægisson
Eyfirskur forngripur, gæfuskeifa, Djúpalónsperla, forneskjulegur lykill að óþekktri hurð og fleiri smágripir komu í hlut nýrra ráðherra í dag við lyklaskipti í ráðuneytum þegar ný ríkisstjórn tók formlega við völdum. Fráfarandi ráðherrar óskuðu eftirmönnum sínum velfarnaðar í starfi.

„Þetta er gæfuskeifa og lykillinn er hér," sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þegar hún færði Kristjáni Þóri Júlíussyni forláta lyklakippu að ráðuneytinu. „Þetta er eitt mikilvægasta ráðuneytið eins og þú veist. Það verður að fara vel með þetta. Gangi þér allt að sólu, elsku vinur," bætti hún við.

Mynd: RÚV / Þór Ægisson

 

„Það er vont að fara með þetta í gegnum flughafnir. Það pípir alltaf allt,“ sagði Þorgerður þegar hún færði Kristjáni gæfuskeifuna ásamt lykli að ráðuneytinu.

„Þetta eru nýjar áskoranir og ný tækifæri, það er alltaf ánægjulegt," segir Kristján Þór. Hann segir að helsta áskorunin sem fylgir því að taka við ráðuneytinu sé að skila af sér betra búi en hann tekur við. „Það er bara eins og með allt annað í lífinu. Maður reynir að leggja sig fram og standa undir þeirri ábygð sem manni er falin," segir Kristján Þór Júlíusson. 

Aðspurður hvort sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið væri draumaráðuneytið svaraði hann: „Okkur hefur alltaf dreymt um að ná forsætisráðuneytinu, okkur Þorgerði.“

 

Mynd: RÚV / Þór Ægisson

„Ég hefði viljað vera lengur," sagði Björt Ólafsdóttir þegar hún færði Guðmundi Inga Guðbrandssyni lyklana að umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. „En það er huggun þó að hér sé kominn stöndugur ráðherra í mitt sæti," bætti hún við.

„Ég vil bara segja við þig kæri Mummi, eins og ég hef alltaf kallað þig. Gangi þér vel, ég veit þú munt standa þig vel. Þú heldur á fjöreggi okkar allra og þú veist það manna best. Ég færi þér lyklana að skrifstofunni. Þetta er Djúpalónsperla sem Sigrún Magnúsdóttir færði mér og gengur að þessum glæstu dyrum," sagði Björt Ólafsdóttir þegar hún afhenti Guðmundi lyklana.

Guðmundur segist vera auðmjúkur og kvíðinn í senn fyrir nýjum verkefnum. „Ég skal alveg vera hreinskilinn, að ég hef alla tíð getað hugsað mér að starfa að umhverfismálum á víðum grundvelli. Ég hef ekkert endilega verið að pæla í [því að verða ráðherra], en why not?" segir hann. Hann þakkaði Björt kærlega fyrir störf sín. 

„Á þessum stutta tíma sem þú hefur verið hérna, hefur þér tekist að marka ákveðin spor sem verða geymd á meðal okkar Íslendinga, þá vísa ég sérstaklega til afskaplegra mikilvægra friðlýsinga. Svo veit ég að það eru fleiri mál komin í gang og ég ætla að gera mitt besta til að halda kyndlinum á lofti," segir hann.
 

 

Mynd: RÚV / RÚV

Þorsteinn Víglundsson, fráfarandi félags- og jafnréttismálaráðherra, færði Ásmundi Einari Daðasyni lyklana að ráðuneytinu í dag. Lyklakippan sjálf er forneskjulegur lykill, en Þorsteinn sagði að honum hefði ekki tekist að finna dyrnar sem lykillinn gengur að. Ásmundur Einar sagði að eitt af hans fyrstu verkum yrði að finna dyrnar sem lykillinn dularfulli gengi að.

Þorsteinn segir að Ásmundur Einar taki við afskaplega góðu ráðuneyti. „Hér er gríðarlega öflugt starfsfólk," segir hann. „Ég ráðlegg honum bara að hlusta á þeirra góðu ráð." Hann segist hlakka til að vera í stjórnarandstöðu og segir að það verði ný reynsla.

Ásmundur Einar segist ætla að leggja áherslu á þau mál sem fram koma í stjórnarsáttmálanum. „Það eru jafnréttismálin, það er málaflokkur aldraðra, öryrkja, málaflokkur fatlaðra, húsnæðismálin og fleiri mál,“ segir hann.

„Ég vil segja það líka að ég veit að þú hefur verið að vinna hér gott starf þótt þú hafir verið í stuttan tíma. Ég vil geta fylgt því eftir og haft þig líka nálægt ef eitthvað er, hvenær sem er,“ sagði Ásmundur Einar þegar þeir Þorsteinn tókust í hendur og Ásmundur Einar tók við ráðuneytinu.
 

 

Mynd: RÚV / RÚV

Kristján Þór Júlíusson færði Lilju Alfreðsdóttur lyklana að mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Lyklunum fylgdi eyfirskur forngripur, nefnilega lítil stytta af þrumuguðnum Þór.

Kristján gaf nýbökuðum ráðherra heilræði: „Bara að ganga til verks glöð og brosandi og bjartsýn og einbeitt í því að skila af okkur betra búi en við tókum við,“ sagði hann.

Lilja sagði að komandi verkefni legðust mjög vel í sig. Hún sagði að ríkisstjórnin væri að boða stórsókn í menntamálum, til stæði að efla háskólanám og framhaldsskólanám og að leggja áherslu á iðnnám.

 

Mynd: RÚV / RÚV

Svandís Svavarsdóttir tók við lyklunum að heilbrigðisráðuneytinu í dag í fjarveru Óttars Proppé. Ráðherrann fráfarandi hafði áður sent Svandísi orðsendingu og þau ætla að hittast í næstu viku og fara yfir komandi verkefni Svandísar í nýju starfi.

„Ég hef mjög skýra leiðsögn í stjórnarsáttmálanum um það hvað stendur til. Það er táknrænt að heilbrigðismálin eru fyrsti kaflinn. Þar er mjög ítarleg leiðsögn um hvað ég á að gera. Ég hlakka mikið til að standa vörð um öflugt heilbrigðiskerfi fyrir fólkið í landinu. Fyrst og fremst að tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu,“ segir Svandís.

Hún segir að hún hafi ekki sóst sérstaklega eftir neinu ákveðnu ráðuneyti en er mjög ánægð með að hafa endað í heilbrigðisráðuneytinu.

 

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV