Fórnarlömb ofbeldis og pyntinga til landsins

03.03.2016 - 16:40
Women and children among Syrian refugees striking at the platform of Budapest Keleti railway station. Refugee crisis. Budapest, Hungary, Central Europe, 4 September 2015.
 Mynd: Mstyslav Chernov - Wikimedia
Sýrlensku flóttamennirnir tuttugu sem væntanlegir eru hingað til lands eru á aldrinum tveggja vikna til 60 ára. Börnin í hópnum eru talin vera í sérstakri hættu auk þess sem að í hópnum er fólk sem hefur orðið fórnarlömb ofbeldis og pyntinga, samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu.
Von er á tuttugu sýrlenskum flóttamönnum hingað til lands innan tveggja mánaða. Fólkið er í Líbanon og bíður eftir heimild til þess að yfirgefa landið. Þetta eru fimm fjölskyldur, níu fullorðnir og ellefu börn. Yngsta barnið er nýfætt. Fólkinu verður komið fyrir í Hafnarfirði og Kópavogi.
 

Linda Rós Alfreðsdóttir, sérfræðingur hjá flóttamannanefnd, segir að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi lagt til hvaða einstaklingum skyldi bjóða hingað til lands og að stjórnvöld hafi samþykkt þær tillögur. Ekki hafi verið lögð áhersla á einn tiltekinn hóp að þessu sinni en Linda Rós segir að flóttafólk eigi almennt undir högg að sækja, sérstaklega eins og staðan sé orðin víðsvegar í dag.    

Sá hópur sem von er á til landsins sé fjölbreyttur og þar á meðal séu fjölskyldur sem taldar eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Fjölskyldurnar eru frá tveggja manna upp í átta manna, og fólkið er á aldrinum frá tveggja vikna til 60 ára.  

Linda Rós segir að ástæður þess að fólkið sé með stöðu flóttamanna séu stríðsátökin í Sýrlandi, þörf fyrir alþjóðlega vernd og að þarna á meðal séu börn sem eru álitin vera í sérstakri hættu auk þess sem að í hópnum séu fórnlömb ofbeldis og pyntinga.

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV