Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Formlegri leit lokið í bili

10.07.2018 - 00:51
Mynd með færslu
 Mynd: Örlygur Hnefill Örlygsson
Talsvert er af fólki við Hraunhafnarvatn við Melrakkasléttu þar sem leit stendur yfir af hvítabirni. Örlygur Hnefill Örlygsson, forseti sveitarstjórnar í Norðurþingi, er á svæðinu ásamt föður sínum og fjölda annarra sem fylgjast grannt með gangi mála. Þyrla Landhelgisgæslunnar flýgur yfir svæðið, bæði hátt yfir og í lágflugi að sögn Örlygs, og er lögreglumaður um borð sem skimar eftir birninum. Fleiri lögreglumenn taka þátt í leitinni með kíki.

Örlygur segist hafa heimildir fyrir því að þrír menn, tveir Frakkar og einn Íslendingur, í silungsveiði á svæðinu hafi orðið varir við eitthvað sem þeir töldu vera ísbjörn. Ef hvítabjörninn finnst, segist Örlygur binda nokkrar vonir við að hann fái stað í nýju safni sem til stendur að reisa á Raufarhöfn.

Formlegri leit að birninum er lokið í bili, að sögn Lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Lögreglumenn verða þó áfram á vaktinni í nágrenni við svæðið í nótt. Ákvörðun verður tekin um framhaldið um klukkan átta í fyrramálið.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV