Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Formennirnir útkljá síðustu atriðin

Myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Vinstri-grænna og Framsóknarflokksins er mjög langt komin. Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að nokkur atriði standi ennþá út af sem formenn flokkanna þriggja þurfi að útkljá sín í milli. Hann segir mögulegt að stjórnarmyndun verði borin undir flokksstofnanir í vikunni og að Alþingi gæti komið saman snemma í næsta mánuði, eftir tíu daga eða svo.

„Þetta hefur gengið vel, hægar en við vorum að vonast til, en við erum mjög langt komin með að ná til enda í vinnunni. Það standa þó ennþá út af nokkur atriði sem við þurfum að útkljá á milli okkar formannanna,“ segir Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, um gang stjórnarmyndunarviðræðna. Hann segist ekki geta úttalað sig um hvaða atriði það eru en segir flokkana mjög nálægt því að ná saman um það sem út af stendur. „Við erum að vona það að við fáum botn í þetta á morgun.“

Bjarni segir ekkert hafa komið upp á sem hafi truflað starfið. „Nei, ekkert sérstakt, þetta hefur bara gengið vel. Það hefur verið fínn andi í þessu starfi. Það eru mörg horn sem þarf að líta í. Við erum að vonast til að geta fylgt þeirri tímalinu sem hefur smám saman verið að teikna sig upp, að við gætum náð til enda í þessari viku en eins og ég segi eigum við eftir að binda enda á nokkur mál.“

Bjarni segir að mögulega verði mál borin undir flokksstofnanir í vikunni vegna stjórnarmyndunar.

Verða að undirbúa fjárlagafrumvarp á sama tíma

Annað árið í röð verða fjárlög afgreidd eftir kosningar í október. Bjarni segir að þetta sé eitt af því sem taka hafi þarft tillit til við viðræður flokkanna um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

„Það er alveg rétt að hluti þess starfs sem við höfum verið að vinna, að skoða fjárlagafrumvarpið, bera saman bækur okkar, fá einhverja uppfærslu á stöðunni og það er eitt af því sem stjórnarflokkar þurfa að vera samstíga um. Það eru tillögur inn á næsta ár. Sú vinna hefur bara gengið ágætlega. Við höfum lagt töluverða vinnu í að skoða stöðuna út frá ólíkum málefnasviðum og erum með hugmyndir um hvernig við viljum fara í það,“ segir Bjarni. „En þetta er auðvitað dálítið erfitt að gera í þeirri stöðu sem við erum í, flokkar í stjórnarmyndunarviðræðum, og það verður forgangsverkefni hjá okkur að ljúka tillögugerð fyrir fjárlögin ef við náum til enda.“

Bjarni sér fyrir sér að þing geti komið saman snemma í desember, eftir tíu daga eða svo, ef af stjórnarmyndun verður.