Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Formenn flokkanna 5 bjartsýnir eftir fundinn

19.11.2016 - 15:35
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Fundi forystumanna VG, Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er lokið. Fundurinn, sem hófst klukann 13 og átti að standa í tvær klukkustundir, dróst eilítið á langinn og lauk hálfíma á eftir áætlun eða klukkan 15:30. Engin formleg ákvörðun hefur verið tekin um að hefja stjórnarmyndunarviðræður en flokkarnir ætla að hittast aftur á morgun. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir fólk hafa verið lausnamiðað og sjá það vel fyrir sér að flokkarnir geti unnið saman.

Katrín Jakobsdóttir ræðir nú málið við þingflokkinn sinn. Hún sagði að eftir fundinn að þau hefðu farið yfir stór mál eins og heilbrigðismál, skattamál, sjávarútvegsmál og stjórnarskrársmál. „Þetta er mjög jákvæður fundur og það var gaman að fá fleiri að borðinu og fá fram opnar umræður.“ Hún sagði að það myndi skýrast á morgun hvort flokkarnir færu í stjórnarmyndunarviðræður. „Miðað við þennan fund fannst mér fólk mjög lausnamiðað og ég sé vel fyrir mér að við getum unnið saman.“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir að fundurinn hafi verið betri en hún hafi átt von á - hafi hún þó verið bjartsýn fyrir fundinn. Hún segir að núna ætli þau að hitta sinn þingflokk og fara yfir stöðuna. Hún segir það koma í ljós á morgun hvort flokkarnir fimm hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður - nú verði tímanum varið í að ræða við baklandið . „Það var mjög góður andi á þessum fundi og fólk er mjög opið fyrir góðum og skýrum verklagsreglum sem hljómar eins og tónlist í mínum eyrum.“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagðist sitja eftir með þægilega tilfinningu eftir fundinn - hann hefði staðist sínar væntingar. Hann sagði enga ákvörðun liggja fyrir um að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður - boltinn væri hjá Katrínu en þetta myndi væntanlega skýrast eftir fund flokkanna á morgun. Hann sagði góðan samhljóm hafa verið í mörgum málum - andrúmsloftið gott og þægilegt.

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sagði fundinn hafa verið góðan og gott að sjá allt þetta fólk saman.  „Hann gerir mann bjartsýnan fyrir framtíðina.“ Mikil samstaða hafi verið um að gera betur í málum eins og heilbrigðismálum. Núna fái flokkarnir tækifæri að tala við sitt bakland og síðan skýrist þetta á morgun.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði enga niðurstöðu vera komna í þessa viðræður - það væri munur á þessum flokkum og það hafi alltaf verið vitað en það hafi verið góður andi. „Ég sé ekkert sem mælir á móti því að við getum ekki haldið áfram að ræða saman.“

Alls sátu fimmtán fundinn frá flokkunum fimm - meðal annars Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Fyrir hönd VG sátu Björn Valur Gíslason, varaformaður VG, Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður, og Katrín Jakobsdóttir.

Katrín fékk stjórnarmyndunarumboðið á þriðjudag og gert er ráð fyrir því að forseta Íslands verði gerð grein fyrir stöðunni í byrjun næstu viku.  Þau voru sammála um að myndun nýrrar ríkisstjórnar mætti ekki taka langan tíma.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV