Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Formaðurinn fann stuðning og ánægju

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Formaður Vinstri grænna segir landsfundarfólk ánægt með þann málefnalega árangur sem flokksforystan hafi náð þótt auðvitað sé forystan brýnd áfram til góðra verka. Tuttugu og fimm ályktanir voru samþykktar á landsfundi flokksins sem lauk rétt eftir hádegi í dag. Ný matvælastefna var samþykkt og aðrar stefnur uppfærðar með tilliti til loftslagsmála. 

Landsfundurinn nú er sá fyrsti síðan VG tók sæti í ríkisstjórn. Margir nýir hafa skráð sig í hreyfinguna samkvæmt upplýsingum frá VG og var mikil ásókn í ábyrgðarstöður í flokknum. 

„Við erum t.d. búin að tala líklega mest um loftslagsmálin. Þau eru eins og rauður þráður í öllu öðru, sem við erum að gera. Það er ný stefna að líta dagsins ljós um matvælamál, sem ég held að eigi eftir að verða mjög áberandi í pólitískri umræðu á næstu árum, vegna þess að þau varða auðvitað bæði loftslagsmálin, lýðheilsumál en tengjast líka því hvernig við getum orðið okkur sjálfbærari í matvælaframleiðslu. Og svo erum við búin að tala töluvert mikið um ýmis réttindamál, mannréttindamál og svona stóru myndina í þeim málum. Þannig að það er mjög margt undir búið að vera á þessum fundi.“

Mér heyrðist í ræðunni þinni að þú værir aðeins að tala til þeirra í flokknum, sem ekki hefðu verið beint dús við það að VG færi í ríkisstjórn með Framsókn og Sjálfstæðisflokknum. Kom það eitthvað upp á fundinum núna?

„Ég hef nú bara upplifað mjög mikinn stuðning við það, sem við erum að gera í ríkisstjórn. Og ég held að svona skilaboðin frá þessum fundi til okkar í flokksforystunni sé að fólk sé ánægt með málefnalegan árangur, sem náðst hefur. En það er auðvitað líka verið að brýna okkur hressilega áfram til góðra verka.“

Samþykktir landsfundar má sjá á síðu VG.