Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Formaður Samfylkingar kæmist ekki á þing

14.10.2016 - 15:43
Mynd: Anton Brink / Ruv.is
Formaður Samfylkingarinnar nær ekki kjöri samkvæmt könnun Gallups. Fylgi flokksins mælist aðeins rúm 3 prósent í Suðurkjördæmi, kjördæmi formannsins. Framsóknarflokkurinn tapar þremur mönnum í Norðausturkjördæmi.

Það má segja að kannanir sem gerðar hafa verið á fylgi flokkanna að undanförnu hafi verið nokkuð misvísandi. Hins vegar vekur athygli að könnun Gallups sem birt var í gær og könnun Félagsvísindastofnunar sem Morgunblaðið birtir í dag ber nokkuð vel saman. Eini marktæki munurinn þegar tekið er tillit til vikmarka virðist vera á fylgi VG. Gallup sýnir flokkinn með 14,5% fylgi en Félagsvísindastofnun með 17,7% og þar með næststærsta flokkinn á eftir Sjálfstæðisflokki en Píratar eru næststærsti flokkurinn í könnun Gallups. Kannanirnar voru gerðar á svipuðum tíma, Gallup frá 3. til 12. október og Félagsvísindastofnun frá 6. til 12. október.

En hverjir komast á þing og hvernig skiptist fylgið milli kjördæmanna? Rétt er að hafa í huga að vikmörk geta verið há en tölurnar gefa hugsanlega vísbendingar um hreyfingar miðað við síðustu könnun Gallups. 

Tapa þremur í Norðausturkjördæmi

Byrjum á Framsóknarflokki sem fengi 9,8% fylgi á landsvísu, er á uppleið miðað við síðustu könnun Gallups í september 8,2% en var með 24% í kosningunum 2013. Fengi samkvæmt þessu 7 þingmenn en litlar breytingar þurfa að verða á fylginu í Suðurkjördæmi til að flokkurinn missi einn mann þar. Flokkurinn var með á milli 16 og 17% fylgi í Reykjavíkurkjördæmunum 2013 en nú hefur gengi hans fallið talsvert, 2,6% í suður og 5 í norður. Enginn þingmaður, sem myndi þýða að hvorki Lilja Dögg Alfreðsdóttir né Karl Garðarsson kæmust á þing. Fengju einn mann í Suðvesturkjördæmi sem þýðir að Eygló Harðardóttir er inni og Gunnar Bragi Sveinsson og Elsa lára Arnardóttir ná kjöri sínu kjördæmi, Norðurvesturkjördæmi. Flokkurinn fékk tæplega 35% fylgi í Norðausturkjördæmi og fjóra menn kjörna með Sigmund Davíð í broddi fylkingar 2013. Fylgið hefur dregist saman um tvö prósentustig  í kjördæminu miðað við síðustu könnun Gallups og mælist nú 13%. Sigmundur Davíð kæmist einn á þing en hvorki Þórunn Egilsdóttir né Líneik Anna Sævarsdóttir. Fylgi flokksins í Suðurkjördæmi, kjördæmi Sigurðar Inga Jóhannssonar, hefur aukist um rösk 7% frá síðustu könnun Gallups og mælist nú 23 af hundraði en flokkurinn var með 34,5% í síðustu kosningum. Flokkurinn fengi 3 menn og Sigurður Ingi og Silja Dögg Gunnarsdóttir kæmust bæði á þing og sömuleiðis Ásgerður K. Gylfadóttir.

Sjálfstæðisflokkur tapar þremur

Sjálfstæðisflokkur fékk tæplega 27% fylgi í síðustu kosningum en mælist nú stærstur flokka með 22,6%. Nær þremur eins og síðast í Reykjavík suður en tapar einum í norður og Birgir Ármannsson kæmist ekki á þing. Tapar tveimur  í Suðvesturkjördæmi, kjördæmi Bjarna Benediktssonar formanns flokksins, og fengi 3 menn kjörna. Fengi 3 menn kjördæmakjörna  í Suðurkjördæmi og bætir við sig einum í Norðausturkjördæmi með 3 þingmenn. Fengi tvo eins og síðast í Norðvesturkjördæmi. Fengi engin uppbótarþingsæti samkvæmt könnuninni. Tapar því þremur þingmönnum.

Formaðurinn nær ekki kjöri

Samfylkingin er nú minnst þeirra flokka sem sitja á þingi með 7 af hundraði. Flokkurinn fengi tvo kjördæmakjörna þingmenn og þrjá uppbótarþingmenn. Einn kjörinn í Suðvesturkjördæmi og annan í Norðausturkjördæmi. Árni Páll Árnason og Logi Einarsson yrðu kjördæmakjörnir. En flokkurinn á kost á þremur uppbótarþingsætum. Samkvæmt því myndi einn bætast við í Suðvestur, Margrét Gauja. Einn í hvoru Reykjavíkurkjördæmanna, Össur Skarphéðinsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Athygli vekur að fylgi flokksins mælist minnst í Suðurkjördæmi, 3,4%, kjördæmi Oddnýjar G. Harðardóttur formanns flokksins. Var með 10% í síðustu kosningum. Samkvæmt þessu kæmist hún ekki á þingi hvorki sem kjördæmakjörin né uppbótarþingmaður. Flokkurinn fengi 5 þingmenn og tapaði því 4 þingmönnum.

Ari Trausti á þing?

Vinstri græn eru hins vegar á uppleið tæplega 15% fylgi sem gæfi þeim 10 þingmenn miðað við 7 nú. Fylgið mælist mest 18% í Reykjavík suður þar sem Svandís Svavarsdóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé kæmust á þing. Katrín Jakobsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir ná kjöri samkvæmt þessu í norðurhluta borgarinnar. Rósa Björk Brynjólfsdóttir kemst á þing í Suðvesturkjördæmi. Lilja Rafney Magnúsdóttir í Norðvesturkjördæmi kemst inn ásamt Bjarna Jónssyni. Steingrímur J. Sigfússon yrði kjördæmakjörinn í Norðausturkjördæmi og Bjarkey Olsen uppbótarþingmaður. Ari Trausti Guðmundsson næði á þing í Suðurkjördæmi.

Horfa bjartari augum til framtíðar

Flokksmenn Bjartrar framtíðar geta andað léttar ef þetta verða úrslitin því flokkurinn mælist nú með tæplega 8% fylgi og fimm menn á þingi. Er nú með 6. Í könnunum að undanförnu hefur flokkurinn ekki náð manni á þing. Óttar Proppé, formaður flokksins, segir að þetta séu gleðileg tíðindi.

Flokkurinn fengi þrjá kjördæmakjörna þingmenn og 2 uppbótarþingmenn. Björt Ólafsdóttir og Sigrún Gunnarsdóttir komast á þing í Reykjavík norður og Nichole Leigh Mosty í suður. Formaðurinn kemst á þing í Suðvesturkjördæmi og Páll Valur Björnsson í Suðurkjördæmi.

Píratar fengju 12 menn kjörna en eru nú með 3. Fylgi flokksins hefur verið á nokkuð hraðri niðurleið síðustu vikur og mánuði og mælist nú í Gallup-könnuninni rúm 18%. Fá kjörna þingmenn í öllum kjördæmum og uppbótarmenn í Norðvesturkjördæmi. Viðreisn fengi 8 menn á þing og þar af tvo kjördæmakjörna sem hugsanlega lenda í Suðurkjördæmi og Suðvesturkjördæmi. Fengju 2 í Reykjavík suður, 1 í Reykjavík norður, 3 í Suðvesturkjördæmi, engan í Norðvesturkjördæmi og einn í Norðaustur- og Suðurkjördæmi.
 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV