Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Formaður ÖBÍ útilokar ekki dómsmál við ríkið

01.09.2018 - 13:28
Mynd með færslu
Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalags Íslands Mynd: RÚV
Formaður Öryrkjabandalags Íslands, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, segir að bandalagið íhugi nú næstu skref eftir að hafa fengið álitsgerð lögfræðings sem staðfestir það að svokölluð krónu á móti krónu skerðing sé mismunun í skilningi laga. Þá útilokar hún ekki dómsmál við ríkið. Þuríður var til viðtals í Vikulokunum á Rás 1.

Króna á móti krónu skerðingin hefur verið eitt helsta baráttumál Öryrkjabandalagsins. Ef skerðingin er afnumin fá bótaþegar fyrstu 60.000 krónurnar af vinnulaunum sínum í stað þess að sá peningur fari í skatta og skerðingar. Um 17.830 manns eru með örorkumat og fá lífeyrisgreiðslur frá TR. Um 80 prósent örorkulífeyrisþega eru með greiðslur frá TR undir 280 þúsund krónur fyrir skatt eða um 204 þúsund krónur útborgaðar. Um 40 prósent örorkulífeyrisþega eru með heildartekjur undir 300 þúsund krónur fyrir skatt.

Hún benti sömuleiðis á að sams konar skerðing hafi verið afnumin hjá eldri borgurum 1. janúar 2017. Hún segir að allir stjórnmálaflokkarnir hafi talað fyrir því að afnema skerðinguna en aldrei staðið við gefin loforð. ÖBÍ lét því lögfræðinga vinna álitsgerð um málið þar sem kanna átti hvort þetta væri mismunun. „Það kemur berlega fram í álitinu að þetta er mismunun sem stjórnvöld ættu ekki að leyfa sér. Við erum allavega að íhuga næstu skref, hvort við förum í dómsmál eða hvað við gerum. Þetta var til að styðja okkar sýn að þetta er ekki réttlátt,“ sagði Þuríður Harpa. Þá sagði hún það ótengt þessari skerðingu hvernig greitt er úr almannatryggingum.