Nauðsynlegt að fikta
Guðjón nýtur sín vel á vinnustofunni sem leynist í bakgarði í miðborg Reykjavíkur. „Ég vinn dálítið mikið, alla vega finnst konunni minni það. Hlutirnir gerast oft upp úr einhverju fikti og einhverri „vitleysu“ ef svo má segja. Síðan vinnur maður úr hugmyndum sem þannig kvikna. Þetta er auðvitað mjög mismunandi eftir myndlistarmönnum en ég er alltaf að leita meira og meira í efnivið sem býr yfir einhverri sögu eða merkingu. Ég vil síður efnivið sem kemur beint út úr búð.“
Forfallinn safnari
Guðjón bendir á að það sé sterkur þráður í myndlist 20. aldar að „göfga ruslið“ ef svo má segja, nota fundinn efnivið og gefa honum nýtt líf í myndlist. „Ég er forfallinn safnari og hef verið að nota húsgögn og hitt og þetta sem ég finn.“