Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Forfallinn safnari sem elskar rútínu

Mynd: ruvmynd / ruvmynd

Forfallinn safnari sem elskar rútínu

01.03.2020 - 11:00

Höfundar

„Ég kann mjög vel við mig í návist við sjálfan mig,“ segir Guðjón Ketilsson myndlistarmaður sem nýlega var kjörinn myndlistarmaður ársins á Íslensku myndlistarverðlaununum. Í útvarpsþættinum Víðsjá á Rás 1 var Guðjón heimsóttur á vinnustofuna og rætt við hann um starf myndlistarmannsins.

Nauðsynlegt að fikta

Guðjón nýtur sín vel á vinnustofunni sem leynist í bakgarði í miðborg Reykjavíkur. „Ég vinn dálítið mikið, alla vega finnst konunni minni það. Hlutirnir gerast oft upp úr einhverju fikti og einhverri „vitleysu“ ef svo má segja. Síðan vinnur maður úr hugmyndum sem þannig kvikna. Þetta er auðvitað mjög mismunandi eftir myndlistarmönnum en ég er alltaf að leita meira og meira í efnivið sem býr yfir einhverri sögu eða merkingu. Ég vil síður efnivið sem kemur beint út úr búð.“

Forfallinn safnari 

Guðjón bendir á að það sé sterkur þráður í myndlist 20. aldar að „göfga ruslið“ ef svo má segja, nota fundinn efnivið og gefa honum nýtt líf í myndlist. „Ég er forfallinn safnari og hef verið að nota húsgögn og hitt og þetta sem ég finn.“

Mynd með færslu
 Mynd: ruvmynd
Guðjón safnar ýmsu sem hann finnur í kassa. Einn daginn gæti þetta orðið hluti sýningar.

Guðjón tekur dæmi og sýnir gestinum ofan í kassa sem geyma ýmislegt sem hann hefur fundið á götum Reykjavíkur. Þetta hreinsar hann og merkir með lítill lýsingu. Ofan í kassa koma í ljós litlar plastfígúrur, kramið málmbox sem verður eins og lítil teikning og rækilega útflattur tóbakspungur.

„Þetta eru allt hlutir sem ég finn, stundum eiga þeir einhverja sögu og stundum eru þeir bara formlega athyglisverðir. Það hefur til dæmis einhverja merkingu að finna litla bleika barnsfígúru á Þorláksmessu,“ segir Guðjón yfir einum safnkassanum sínum en hver veit nema þessir gripir endi með tíð og tíma inn í einni sýninga hans.

„Ég er alltaf með plastpoka á mér og líka lítið glas undir vökva,“ segir Guðjón sem málar litlar hringlaga myndir úr flestum þeim drykkjum sem hann leggur sér til munns. Þannig verða til eins konar persónuleg dagbókarbrot úr lífi hans í myndrænu formi.

Mynd með færslu
 Mynd: ruvmynd
Lítið málverk með ávaxtatei, eins konar dagbókarbrot úr lífi Guðjóns.

„Mér finnst rútína góð, ég er ekki mikið fyrir helgidaga,“ segir Guðjón hlæjandi þegar hann er spurður út í það hvað hann sé að hugsa og vinna við daginn sem útvarpsmann ber að garði. Hann er ný kominn í kennslu sem hann segir nærandi fyrir myndlistarmenn þó að hann sé líka oft feginn þegar kennslutarnirnar eru afstaðnar. „Þá er maður farinn að sjá vinnustofuna í hyllingum.“

Mynd með færslu
 Mynd: ruvmynd
Guðjón Ketilsson kann vel við sig á vinnustofunni.

Viðtalið við Guðjón Ketilsson úr Viðsjá má heyra hér að ofan. Með hljóma kaflar úr Velstillta hljómborðinu eftir Johann Sebastian Bach, þar sem Glenn Gould leikur á píanó. 

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, afhenti Íslensku myndlistarverðlaunin við hátíðlega athöfn í Iðnó 20. febrúar síðastliðinn. Guðjón Ketilsson var valinn Myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Teikn, í Listasafni Reykjanesbæjar, en Claire Paugam hlaut Hvatningarverðlaunin að þessu sinni. 

Í umsögn dómnefndar um Guðjón sagði: 

Guðjón Ketilsson (f. 1956) hlýtur Myndlistarverðlaun ársins 2020 fyrir sýninguna Teikn í Listasafni Reykjanesbæjar. Sýningin var samsett úr átta verkum sem tengdust með markvissri framsetningu í sýningarr ýminu og fjölluðu öll með einum eða öðrum hætti um tákn, táknmerkingu og „lestur“, í víðum skilningi.

Á sýningunni mátti sjá ýmiskonar þemu og hugmyndir sem hafa verið áberandi í verkum Guðjóns á síðustu árum, sett fram í nýjum verkum á einstaklega áhrifaríkan hátt. Sýningin var rökrétt framhald af höfundarverki listamannsins en jafnframt áhrifamikil úrvinnsla og viðbót við það, og vísar leiðina inn í nýja og spennandi merkingarheima. Guðjón Ketilsson er því vel að verðlaununum kominn að mati dómnefndar.

Nánar má lesa um Íslensku myndlistarverðlaunin og tilnefnda listamenn hér.

Tengdar fréttir

Tónlist

Nornaseiður Miles Davis fagnar fimmtíu ára afmæli

Myndlist

Stóra augnablikið