Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Foreldrafélög hvetja til samninga við kennara

21.11.2016 - 23:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Foreldrafélög allra fimm grunnskólanna í Breiðholti hafa sent borgarstjóra og borgarfulltrúum yfirlýsingu þar sem þeir eru hvattir til að beita sér fyrir því að samið verði við grunnskólakennara án tafar.

Alvarleg staða sé komin upp þar sem flótti úr kennarastéttinni blasir við. Foreldrafélögin segja augljóst að kennarar séu ósáttir við launakjör sín og þörf sé á að bæta verulega úr svo sátt skapist um skólastarfið til framtíðar.
Foreldrafélögin skora jafnframt á alþingismenn að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að leysa úr málinu. 

Samningafundi í kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaganna lauk klukkan fjögur í dag. Engar upplýsingar fengust um gang viðræðna aðrar en að aftur verði fundur á morgun. 

 

Mynd: RÚV / RÚV
Rætt var við Önnu Sveinsdóttur í fréttum Sjónvarps í kvöld.

 

Átján grunnskólakennarar Seljaskóla hafa sagt upp störfum í nóvember, þar af fjórtán í dag. Anna Sveinsdóttir, trúnaðarmaður kennara við Seljaskóla, er ein þeirra. Hún segir að uppsagnirnar fjórtán í dag megi að mestu rekja til þess hvernig ráðamenn hafa talað um kjaraviðræður kennara og vísar þar til opins bréfs borgarstjóra frá því á föstudag þar sem hann sagðist leggja áherslu á að nýr samningur við kennara verði liður í heildstæðri umbótaáætlun.  

„Það er alltaf talað um að það þurfi að fara í heildarhagræðingu á skólastarfinu. Það tala allir í kringum þennan bleika fíl sem er í stofunni, sem er að launin eru of lág.  Ég yrði ekki hissa á því þó það kæmu fleiri [uppsagnir]. Meðalaldurinn hjá kennarastéttinni er hár, sumir horfa fram á að fara á eftirlaun í vor og segja þar af leiðandi kannski ekki upp en yngra fólkið er allt að hugsa sinn gang.“ 

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV