Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fordæmi fyrir að þingmenn styðji ekki stjórn

Mynd með færslu
 Mynd: RUV - RUV
Ákvörðun tveggja þingmanna Vinstri grænna um að styðja ekki stjórnarsamstarf flokksins á sér fordæmi. Það hefur áður gerst að þingmenn fari gegn flokksvilja þegar kemur að stjórnarmyndun án þess að þeir hrökklist úr flokknum. Það gerðist til dæmis þegar nýsköpunarstjórnin var mynduð, með aðkomu Sjálfstæðisflokks og Sósíalista 1944 og þegar Gunnar Thoroddsen myndaði ríkisstjórn með Framsóknarflokknum og Alþýðbandalagi 1980 gegn vilja Sjálfstæðisflokksins.

Flokkarnir lengst til hægri og vinstri í stjórnmálum hafa einu sinni áður starfað saman í ríkisstjórn, í nýsköpunarstjórninni frá 1944 til 1947. Þá fór Sósíalistaflokkurinn einhuga í stjórn en fjórðungur þingflokks Sjálfstæðisflokksins, fimm þingmenn af tuttugu, lýsti því yfir að hann myndi ekki styðja ríkisstjórnina. Ingólfur Jónsson frá Hellu, Jón Sigurðsson á Reynistað, Gísli Sveinsson, Pétur Ottesen og Þorsteinn Þorsteinsson. Mótstaða þeirra við stjórninni varð þeim þó ekki dýrkeyptari en svo að Ingólfur var rúmlega 30 ár enn á Alþingi, Jón og Pétur í rúman áratug. Gísli og Þorsteinn hættu fyrr á þingi. Þriðji flokkurinn sem sat í þeirri stjórn var Alþýðuflokkurinn sem samþykkti stjórnarsetu með eins atkvæðis mun.

Sjálfstæðismenn leiddu stjórn og stjórnarandstöðu

Dramatískasta stjórnarmyndun Íslandssögunnar var eflaust myndun ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsen, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, og nokkurra samflokksmanna hans með Framsóknarflokknum og Alþýðubandalaginu árið 1980. Þá var Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og yfirgnæfandi meirihluti þingmanna flokksins í stjórnarandstöðu við ríkisstjórn varaformanns flokksins og samferðamanna hans. Þá gengu Gunnar, Friðjón Þórðarson, Pálmi Jónasson gegn flokksvilja og mynduðu ríkisstjórn auk þess sem Albert Guðmundsson varð stjórnina með hlutleysi sínu og Eggert Haukdal studdi stjórnina. Eggert var reyndar utan flokka eftir að hafa komist á þing með sérframboði.

Þrátt fyrir þetta var Gunnari og félögum hans hvorki vikið úr Sjálfstæðisflokknum eða þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Þeir mættu á þingflokksfundi en viku af fundum þegar rædd voru mál stjórnarandstöðunnar gegn ríkisstjórninni. Friðjón, Pálmi og Eggert áttu allir eftir að sitja áfram á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Albert sem var aldrei formlegur stuðningsmaður stjórnar Gunnars Thoroddsen sat eitt kjörtímabil enn og varð ráðherra en sprengdi síðan flokkinn með stofnun Borgaraflokksins 1987.

Sumir hætta stuðningi og yfirgefa flokkinn

Svo eru enn fleiri dæmin um að þingmenn hafi hætt stuðningi við ríkisstjórn og sagt sig úr þeim flokkum sem þeir voru kosnir á þing fyrir. Það á til dæmis við um vinstristjórnina 2009 til 2013 þegar nokkrir þingmenn úr Vinstri grænum, þar á meðal Ásmundur Einar Daðason sem hefur verið í Framsóknarflokknum síðan, Jón Bjarnason og Lilja Mósesdóttir. Róbert Marshall sagði sig úr Samfylkingunni en lét ekki af stuðningi við ríkisstjórnina.

Kristinn H. Gunnarsson, sem upphaflega var kosinn á þing fyrir Alþýðubandalagið en gekk síðar til liðs við Framsóknarflokkinn hætti stuðningi við ríkisstjórn þess flokks og Sjálfstæðisflokksins og gekk til liðs við Frjálslynda flokkinn.

Leiðrétt 23:41 Róbert Marshall lét ekki af stuðningi við ríkisstjórn þó hann segði sig úr Samfylkingunni.