Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Fordæmd fyrir að kæra kynferðisbrot

08.04.2013 - 16:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Það er erfitt að þurfa að takast á við ofbeldi eins og nauðgun en eiginlega verra að upplifa það að fólk haldi með nauðgaranum eða trúi manni ekki. Þetta segir ung kona sem fyrir 13 árum varð fyrir því að stór hópur fólks snerist gegn henni opinberlega þegar hún kærði nauðgun sem hún varð fyrir.

Konan heitir Guðný Jóna Kristjánsdóttir. Sagt verður frá málinu í Kastljósi í kvöld og þar verður rætt við Guðnýju.

Nauðgun eftir próflokafögnuð

Árið 2000 féll dómur í Hæstarétti Íslands þar sem ungur maður var sakfelldur fyrir að nauðga jafnöldru sinni og bekkjarsystur ári áður. Nauðgunin átti sér stað eftir próflokafögnuð nemenda á fyrsta ári í Framhaldsskólanum á Húsavík vorið 1999. Héraðsdómur Norðurlands eystra hafði áður komist að sömu niðurstöðu. Maðurinn sem var dæmdur játaði brot sitt upphaflega en dró síðan þá játningu til baka í meginatriðum. 

Athygli vakti að Hæstiréttur hækkaði jafnframt upphæð miskabóta til konunnar frá því sem áður hafði verið ákveðið í héraðsdómi. Ástæðan var sú að Guðný hafði orðið fyrir því sem Hæstiréttur kallaði félagslega röskun vegna málsins.

Fáheyrðar ofsóknir

Fáum sem þekktu til málsins duldist hvað fólst í þessu stofnanalega orðfæri Hæstaréttar. Guðný hafði sætt fáheyrðum ofsóknum vegna þeirrar ákvörðunar sinnar að kæra nauðgunina. Fjölmennur hópur Húsavíkinga hafði meðal annars birt opinberlega yfirlýsingu þar sem lýst var yfir stuðningi við manninn sem nauðgaði henni. Þetta gerðist eftir að dómur féll yfir manninum í héraði, en þá niðurstöðu taldi þetta fólk vera ranga. 

Yfirlýsingin var birt í bæjarblaðinu á Húsavík. Undir hana rituðu á annað hundrað einstaklingar nöfn sín. Fólk á öllum aldri og af báðum kynjum. Álíka herferð er óþekkt á Íslandi. Hvorki fyrr né síðar hefur þolandi í kynferðisbrotamáli mætt viðlíka skipulagðri og opinberri fordæmingu og þarna. 

Flutti burt frá Húsavík

Þessu til viðbótar létu margir af þeim sem undirrituðu listann hörð orð falla um Guðnýju í fjölmiðlum. Meðal annars var sagt fullum fetum að hún hefði kallað nauðgunina yfir sig eða að nær væri að kalla hana nauðgara en manninn, sem dæmdur var stuttu áður. Ekkert af þessu fólki var þó til frásagnar um atburðinn sem málið byggði á. Guðný fluttist burt frá Húsavík í kjölfar þessara atburða. Hún hefur ekki búið þar síðan. 

Hvað finnst fólki nú?

Kastljós hefur undanfarið skoðað sögu málsins, sem hefur á stundum haft yfir sér nokkurs konar flökkusögublæ og er oft nefnt sem dæmi um einhverja sýnilegustu þöggunartilburði gegn fórnarlambi kynferðisofbeldis á Íslandi. Rætt hefur verið við fjölda fólks sem tengdist því á einhvern hátt. Meðal annars var haft samband við á sjötta tug einstaklinga sem á sínum tíma skrifuðu undir yfirlýsinguna og hugur þeirra til málsins kannaður, nú 13 árum síðar.  

Tók langan tíma að vinna úr reynslunni

Guðný er í dag 31 árs. Í Kastljósi í kvöld segir hún sögu sína í fyrsta skipti opinberlega. Meðal annars frá áhrifum af hennar máli á aðra sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi og hafa sett sig í samband við hana. Frá áreiti sem hún varð fyrir á meðan á málinu stóð, þrýstingi sem hún varð fyrir og hvernig henni tókst að vinna sig út úr þessari erfiðu reynslu. 

„Það tók mig langan tíma að vinna úr þessu öllu en það tókst,“ segir hún í viðtali við Kastljós. „Að komast yfir þann tíma, sem þetta poppaði upp í hausnum á mér á hverjum degi. Í dag gerist það ekki nema annað slagið. Einna helst þegar sams konar mál eru í fréttum eða þegar einhver minnist á þessa atburði við mig af því að hann hefur heyrt um það og veit að ég er frá Húsavík, án þess að vita að þessi stelpa er ég. Í dag segi ég fólki bara eins og er. Ég er þessi stelpa frá Húsavík.“