Fordæmalaus staða í breskum stjórnmálum

12.12.2018 - 22:19
Erlent · Brexit · Evrópa
Mynd:  / 
Rúmur þriðjungur þingmanna breska Íhaldsflokksins samþykkti vantraust á Theresu May, forsætisráðherra Breta, í kvöld vegna Brexit-samningsins við leiðtoga Evrópusambandsins. Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor segir May í stöðugu hindrunarhlaupi og staðan í breskum stjórnmálum þessa dagana án fordæma.

Hópur Íhaldsmanna lagði tillöguna fram vegna óánægju með samning hennar um Brexit. 317 er í þingflokki Íhaldsflokksins og allir greiddu atkvæði. 200 studdu May en 117 greiddu atkvæði gegn henni. Það er því rúmlega þriðjungur flokksmanna sem ekki studdi May. Eiríkur Bergmann segir að May standi núna frammi fyrir stærstu hindruninni, að koma Brexit-samningnum í gegnum þingið. 

Jacob Rees-Mogg, þingmaður Íhaldsflokksins og einn þeirra sem greiddi atkvæði gegn May, segir þennan stuðning lítinn og May eigi að segja af sér sem fyrst. Theresa May sagðist í kvöld ætla að halda ótrauð áfram. „Þetta hefur verið langur og erfiður dagur. En ég er glöð að hafa fengið stuðning samflokksmanna minna í atkvæðagreiðslunni í kvöld. Ég er þakklát fyrir stuðninginn en fjöldi þingmanna greiddi atkvæði gegn mér og ég hef hlustað á hvað þeir höfðu að segja. Nú að lokinni þessari atkvæðagreiðslu verðum við að halda áfram með Brexit, bresku þjóðinni til heilla og tryggja þessu landi bjarta framtíð,“ sagði May í kvöld. 
 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi