Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fordæma aðgerðir gegn mótmælendum í Moskvu

28.07.2019 - 23:49
Erlent · Moskva · Rússland · Evrópa
epaselect epa07744688 Russian riot police detain a man during a protest action in the center of Moscow, Russia, 27 July 2019. Activists and protesters say that Russian election authorities are preventing opposition candidates from running in upcoming municipal elections for the Moscow City Duma, according to reports.  EPA-EFE/YURI KOCHETKOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lögregla í Moskvu í Rússlandi handtók 1.373 manns á laugardag sem kröfðust frjálsra kosninga í landinu. Bandaríska sendiráðið í Moskvu fordæmdi aðgerðir lögreglu og segir þær grafa undan rétti borgara til þátttöku í lýðræðinu. Evrópusambandið tekur í sama streng.

Síðustu helgi fóru um 22 þúsund manns á götur borgarinnar í sömu erindagjörðum en vinsældir Vladimírs Pútíns forseta hafa dalað undanfarin misseri vegna verri lífskjara landsmanna. Þá var stjórnarandstöðuleiðtoginn Alexei Navalny handtekinn fyrir að hvetja til frekari mótmæla gegn stjórnvöldum.

Einhver fjöldi fólks slasaðist í aðgerðum lögreglu á laugardaginn en ekki er vitað hve margir. Ekki hafa fleiri verið handteknir í mótmælum í landinu síðan 2012. Stjórnarandstæðingar hvetja til frekari mótmæla næstu helgi.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV