Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fór úr axlarlið í Reynisfjöru

12.11.2019 - 12:05
Mynd: Þórólfur Sævar Sæmundsson / Þórólfur Sævar Sæmundsson
Kínverskur ferðamaður fór úr axlarlið í öldugangi í Reynisfjöru um miðjan dag í gær. Leiðsögumaður birti myndband á Facebook í gær sem sýndi kröftuga öldu kastast yfir nokkra ferðamenn í fjörunni í gær og hefur það vakið mikla athygli. Yfirlögregluþjónn segir algengt að ferðamenn virði ekki skilti í fjörunni. Sumir hafi jafnvel stungið sér til sunds.

Sveinn K. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir í samtali við fréttastofu að erfitt sé að ráða við straum ferðamanna um Reynisfjöru. Sett hafi verið upp skilti en vandinn sé sá að margir virði þau ekki, einkum fólk sem sé á eigin vegum. 

Reglulega sé fundað með landeigendum um skipulagsmál í Reynisfjöru. Erlendir ferðamenn vanmeti margir hættuna af ölduganginum enda sé sjór lygnari víða annars staðar. Ítrekað komi það fyrir að ferðamenn stingi sér til sunds í Reynisfjöru.