Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fór fjórum sinnum í stofnfrumumeðferð

26.02.2015 - 09:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Íslensk kona sem fór fjórum sinnum í stofnfrumumeðferð til Indlands segist ekki sjá eftir því að hafa farið þessa leið, þrátt fyrir að hafa ekki náð þeim bata sem hún vonaðist til. Hún segir að hver og einn verði að gera það upp við sig hvort að það sé góður kostur að leita sér aðstoðar á Indlandi.

Fór fjórum sinnum til Indlands í meðferð
Þuríður Harpa Sigurðardóttir datt af hestbaki árið 2007 og hlaut mænuskaða í slysinu. Hún er lömuð fyrir neðan brjóstkassa. Á árunum 2009 til 2011 fór Þuríður Harpa fjórum sinnum í stofnfrumumeðferð til Indlands. Í myndbandinu sem fylgir þessari frétt og var tekið árið 2009 segist hún vonast til þess að meðferðin geri henni kleift að ganga á ný. Nú sex árum síðar er Þuríður Harpa enn bundin í hjólastól en hún segir að hún sjái ekki eftir að hafa farið í þessa meðferð. „Þetta var örþrifaráð til að fullreyna hvort að ekki væri hægt að laga eitthvað og bæta eitthvað ástandið.“ 

Telur að meðferðin hafi skilað sér í aukinni hreyfigetu
Hún segist telja að allir sem lenda í svona aðstæðum séu mjög ákveðnir í að ná fullum bata. Hún segir meðferðina hafa gengið ágætlega. „Læknarnir þarna úti sögðu mér að ég skyldi koma til þeirra á meðan að mér fyndist ég vera að fá einhvern bata. Ég fór í fjögur skipti og eftir fjórða skiptið fann ég enga breytingu þannig að ég fór ekki aftur.“ Þuríður Harpa segir að eftir fyrstu meðferðirnar hafi henni fundist hún fá aukna hreyfigetu í efri part líkamans og einnig hafi hún fengið betra jafnvægi. „Það var margt smátt sem spilaði saman og gerði mér kleift að gera hluti sem ég gat kannski ekki gert áður.“

Læknar höfðu efasemdir um meðferðina
Hún segir að læknar hafi verið með efasemdir um að hún færi í þessa meðferð. En einnig hafi þeir verið forvitnir og viljað fylgjast vel með framvindu meðferðarinnar. Það eru um það bil fjögur ár síðan að Þuríður Harpa fór síðast til Indlands og hún segir enga breytingu hafa orðið á ástandi sínu síðan þá. „Ég hef haldið því sem ég fékk í upphafi og er bara eins.“ Hún segir meðferðina, þrátt fyrir að hafa ekki skilað þeim árangri sem hún vonaðist til, hafa verið þess virði. „Það skipta allar framfarir máli. Hversu lítið sem það er þá skiptir það stóru máli, þó að það sé bara pínulítið." Hún segist ekki vera búin að gefa upp alla von um frekari bata. „Nei nei ég er bara að bíða eftir því að það komi einhverjar lausnir og ég geti farið í það ferli.“