Fólksfjöldinn í tölvulandi

Mynd: EPA / EPA

Fólksfjöldinn í tölvulandi

14.08.2018 - 14:39

Þorvaldur Sigurbjörn Helgason skrifar:

„Tóti var einn í tölvulandi, alveg takkaóður fjandi. Á tölvuspilið óður var, hann var alveg spinnigal.“ Svo söng Eiríkur Fjalar fyrir þrátíu og þremur árum, en þó að Tóti hafi verið einn í tölvulandi árið 1985 þá er hann það svo sannarlega ekki árið 2018. Í dag mætti raunar segja að allir væru á vissan hátt staddir í tölvulandi. Tölvurnar sem áður voru skýrt afmarkaður hlutur í lífi fólks, eitthvað sem maður notaði á ákveðnum tímum og á ákveðnum stöðum eru núna orðnar sínálægar í okkar daglega lífi. Flest okkar göngum við um með eina slíka í vasanum og eigum ef til vill nokkrar til viðbótar í ólíkum stærðum og gerðum fyrir mismunandi tilefni. En tækin sjálf eru þó ekki það sem skiptir höfuðmáli hér, þau eru einungis gáttin sem opnar okkur leið inn í tölvuland, vefurinn sem bindur okkur þar er hinsvegar töluvert flóknari.

Undir lok 7. áratugarins kostaði Bandaríska varnarmálaráðuneytið þróunarverkefnið ARPAnet sem var tölvukerfi sem tengdi saman tölvur þriggja Bandarískra háskóla og rannsóknarstofnun Stanford. Fyrstu skilaboðin sem fóru í gegnum ARPAnet voru send á milli Kaliforníuháskóla og Stanford þann 29. október árið 1969 og samanstóðu af bókstöfunum L og O. Áætlað hafði verið að senda orðið LOGIN en kerfið hrundi áður en það náði að klára skilaboðin. Með þessum tveimur bókstöfum var þó lagður grunnurinn að því sem við þekkjum í dag sem internetið. ARPAnet óx hratt og árið 1972 var fyrsti tölvupósturinn sendur og árið 1982 komu IP tölur til sögunnar. Internetið komst þó ekki í almenna notkun fyrr en á 10. áratug síðustu aldar í kjölfar þess að Veraldarvefurinn (World Wide Web) var opnaður almenningi árið 1991. Þess má til gamans geta að höfundur þessa pistils er einmitt fæddur árið 1991 og tilheyrir því einni af fyrstu kynslóðunum sem ólust upp við internetið.

En á þeim 27 árum sem liðin eru frá því að Veraldarvefurinn varð til hefur ýmislegt átt sér stað. Jafnaldrar mínir og aðrir sem tóku sín fyrstu skref á netinu á 10. áratugnum muna eflaust flestir eftir þessu hljóði. Fyrir yngri hlustendur þá er hér um að ræða hljóðið í hinni svokölluðu upphringitengingu sem gladdi fjölmargann netverjann á þarsíðasta áratugi en olli mæðu allra sambýlinga þeirra sem ætluðu að nota heimasímann því ekki var hægt að hringja og vera á netinu á sama tíma. Í dag þurfum við sem betur fer ekki að tengjast netinu í gegnum símana okkar, nema kannski í þeim tilfellum þar sem ekkert Wi-Fi er að fá og við neyðumst til að tengja okkur við 4G.

En eitt af því sem hefur breyst mest á internetinu á þessum tíma er umfang þess. Samkvæmt vefnum InternetWorldStats voru í desember árið 1995, 16 milljónir notenda á Internetinu eða um 0.4% mannkyns þess tíma. Af einhverjum ástæðum virðist viðkomandi síða jafnframt ekki hafa breytt útliti sínu að neinu ráði frá 1995 en það er annað mál. Í desember 2017 voru notendur Internetsins svo orðnir rúmlega 4,1 milljarður sem gera um 54% mannkyns. Já, fólksfjöldinn í Tölvulandi hefur svo sannarlega vaxið síðan Tóti ráfaði þar um einsamall fyrir rúmum þremur áratugum. Tölvurnar og internetið hafa rutt sér til rúms á öllum sviðum tilverunnar og gildir þá einu hvort um er að ræða opinbert eða persónulegt líf okkar. En á meðan samfélagið heldur áfram að aðlagast tækninni verður gærdagurinn sífellt fjarlægari og hlutir sem okkur þóttu eitt sinn hversdagslegir verða úreltari með hverju nýju öppdeiti.

Í bókinni Bókasafn föður míns, sem nýlega var gefin út af hinni dularfullu útgáfu Tunglinu, fjallar Ragnar Helgi Ólafsson um þær miklu samfélagsbreytingar sem tæknibyltingin hefur haft í för með sér á undanförnum áratugum með því að setja þær í samhengi við bókasafn látins föður síns:

„Hver tæknibylting getur af sér nýja vitund. Ritlist, prentverk, dagblöð, útvarp, sjónvarp, netið, símar – allt breytir þetta ekki bara heiminum heldur líka notendum sínum. Nýbreytnin eyðir ekki gömlu verkfærunum eða gömlu vitundinni sem hún ól af sér: Við getum enn hlustað á útvarp, lesið dagblöð þrátt fyrir að vera með nettengda síma í vasanum. En hægt og rólega, í sívaxandi þögn, ryðga þau samt þessi eldri miðlunarform, rykfalla síðan í brúnum pappakössum. Vitundin sem þeim fylgir hættir að vera ráðandi.“

Tölvurnar, internetið og öll tæknin sem þeim hefur fylgt hefur vissulega auðveldað líf okkar til muna. Hægt er að ímynda sér líf þar sem við þurfum vart að standa upp úr sófanum, hvað þá fara út úr húsi, líf þar sem hægt verður að sinna öllum okkar grunnþörfum í gegnum mismunandi öpp og vefsíður. Pizzurnar streyma hver á eftir annarri inn um dyragættina, rafræna myntin streymir út af reikningnum, á sjónvarpsskjánum blikkar tuttugasta og fimmta þáttaröð af Game of Thrones og undir sófanum vinnur þrifavélmennið hörðum höndum að því að safna saman skítugu nærbuxunum þínum. Þessi sviðsetning er ekki svo fjarlæg, sumsstaðar er hún ef til vill þegar orðin að raunveruleika. En það þýðir ekkert að vera með dómsdagsspár, reynslan hefur kennt okkur að slíkir aðilar verða þeir fyrstu til að gleymast í tæknifárinu. En það er öllum holt að staldra aðeins við og velta fyrir sér afleiðingunum. Og við sem höldum enn í úrelt pappírshylki bókanna stöndum frammi fyrir erfiðu vali. Ætlum við að aðlagast eða standa hjá? Kannski endum við eins og Tóti, ein í bókalandi, alveg lestraróðir fjandar.