Snjólaug Ólafsdóttir er umhverfisverkfræðingur og eigandi og stofnandi fyrirtækisins Andrými Ráðgjöf. Hún heldur fyrirlestra um loftslagsbreytingar og viðbrögð við þeim fyrir starfsfólk fyrirtækja.
„Oft tala ég við fólk og segi því að við þurfum ekki að byrja á þeim atriðum sem skipta okkur mestu máli. Ég tek oft dæmið um jeppann. Ef þú ferð á föstudegi upp í þinn jeppa og keyrir upp á hálendið og kemur til baka á sunnudegi endurnærður og tilbúinn til að takast á við lífið þá er það ekki byrjunarstaðurinn þinn.“
Ávextir í augsýn
Snjólaug leggur áherslu á að hægt sé að byrja á einföldum aðgerðum.
„Þá tala ég um þessa low hanging fruits eða ávexti í augsýn, eitthvað sem við getum auðveldlega náð í án þess að fara í drastískar, róttækar aðgerðir.“
Kalla þá loftslagsbreytingar ekki á slíkar aðgerðir?
„Ekki til að byrja með, fyrst byrjum við á því sem er auðvelt. Síðan sem samfélag þurfum við auðvitað að ákveða okkur hvaða stefnu við eigum að taka og þurfum þá ef til vill að gera stórar breytingar en það á ekki að þurfa að vera þannig að okkur líði illa með það. Það er gott að byrja á að skoða sig, hversu miklu máli skiptir þetta mig, er þetta eitthvað sem veldur minni hamingju?“
Samviskubit algengt
Snjólaug segir að margir séu fyrst nú að átta sig á alvarleika loftslagsbreytinga. Það sé algengt að fólk fái samviskubit yfir því hvernig það hefur lifað lífinu, líði illa yfir því og afneiti vandanum.
„Þess vegna þurfum við að leyfa okkur að vera hluti af samfélaginu, eins og það hefur verið uppbyggt en spyrja okkur svo, hvað ætlum við að gera núna í framhaldinu, núna þegar ég veit hver staðan er.“
Finna fyrir létti yfir því að þurfa ekki að umturna öllu
Hún segir að margir þeirra sem sitji fyrirlestra hjá henni finni fyrir létti þegar hún segi þeim að þeir þurfi ekki að umturna tilveru sinni.
„Af því þetta er svolítið dramatískt oft á tíðum og sálfræðingar hafa sagt og skrifað um að þegar við förum að skoða þessa hluti sem við vissum kannski ekki fyrir, eins og með umhverfismálin, þá förum við að finna fyrir kvíða, ótta og hræðslu og förum að afneita hlutunum, viljum ekki heyra um þetta eða sjá þetta því auðvitað forðumst við þessar tilfinningar, þær eru vondar. Fólk finnur fyrir létti að mega vera það sjálft, þurfa ekki að umbreyta lífi sínu strax á morgun.“
Segir loftslagsvandann brýnni en allt annað
Guðni Elísson, bókmenntafræðiprófessor og umsjónarmaður loftslagsverkefnisins Earth 101, segir að afneitunin sé mikil hér á landi.
„Við erum ekki að horfast í augu við stærsta málefni samtíðarinnar, það málefni sem ætti alltaf að vera í fyrsta sæti. Það ætti að koma á undan heilbrigðisumræðunni, á undan öllum félagsmálum, einfaldlega vegna þess að ef við leysum þetta má ekki þá fer allt hitt. Umræðan er ekki komin langt á veg hér á landi, hún er ekki orðin hluti af almennri grundvallarumræðu og þegar stjórnmálamenn taka sig til og gera það rétta þá er þeim refsað.“