Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Fólk þarf ekki að umbreyta lífi sínu“

17.01.2017 - 16:43
Mynd: rúv / rúv
Loftslagsmálin brenna á fólki og mörgum léttir við að ræða þau. Þetta segir umhverfisverkfræðingur, sem veitir ráðgjöf um loftslagsmál. Bókmenntafræðingur sem stendur fyrir fræðsluverkefni um loftslagsmál segir þau allra brýnasta mál samtímans en að fólk eigi erfitt með að tengja við þau tilfinningalega.

Snjólaug Ólafsdóttir er umhverfisverkfræðingur og eigandi og stofnandi fyrirtækisins Andrými Ráðgjöf. Hún heldur fyrirlestra um loftslagsbreytingar og viðbrögð við þeim fyrir starfsfólk fyrirtækja. 

„Oft tala ég við fólk og segi því að við þurfum ekki að byrja á þeim atriðum sem skipta okkur mestu máli. Ég tek oft dæmið um jeppann. Ef þú ferð á föstudegi upp í þinn jeppa og keyrir upp á hálendið og kemur til baka á sunnudegi endurnærður og tilbúinn til að takast á við lífið þá er það ekki byrjunarstaðurinn þinn.“ 

Ávextir í augsýn

Snjólaug leggur áherslu á að hægt sé að byrja á einföldum aðgerðum. 

„Þá tala ég um þessa low hanging fruits eða ávexti í augsýn, eitthvað sem við getum auðveldlega náð í án þess að fara í drastískar, róttækar aðgerðir.“ 

Kalla þá loftslagsbreytingar ekki á slíkar aðgerðir?

„Ekki til að byrja með, fyrst byrjum við á því sem er auðvelt. Síðan sem samfélag þurfum við auðvitað að ákveða okkur hvaða stefnu við eigum að taka og þurfum þá ef til vill að gera stórar breytingar en það á ekki að þurfa að vera þannig að okkur líði illa með það. Það er gott að byrja á að skoða sig, hversu miklu máli skiptir þetta mig, er þetta eitthvað sem veldur minni hamingju?“ 

Samviskubit algengt

Snjólaug segir að margir séu fyrst nú að átta sig á alvarleika loftslagsbreytinga. Það sé algengt að fólk fái samviskubit yfir því hvernig það hefur lifað lífinu, líði illa yfir því og afneiti vandanum. 

„Þess vegna þurfum við að leyfa okkur að vera hluti af samfélaginu, eins og það hefur verið uppbyggt en spyrja okkur svo, hvað ætlum við að gera núna í framhaldinu, núna þegar ég veit hver staðan er.“ 

Finna fyrir létti yfir því að þurfa ekki að umturna öllu

Hún segir að margir þeirra sem sitji fyrirlestra hjá henni finni fyrir létti þegar hún segi þeim að þeir þurfi ekki að umturna tilveru sinni. 

„Af því þetta er svolítið dramatískt oft á tíðum og sálfræðingar hafa sagt og skrifað um að þegar við förum að skoða þessa hluti sem við vissum kannski ekki fyrir, eins og með umhverfismálin, þá förum við að finna fyrir kvíða, ótta og hræðslu og förum að afneita hlutunum, viljum ekki heyra um þetta eða sjá þetta því auðvitað forðumst við þessar tilfinningar, þær eru vondar. Fólk finnur fyrir létti að mega vera það sjálft, þurfa ekki að umbreyta lífi sínu strax á morgun.“ 

Segir loftslagsvandann brýnni en allt annað

Guðni Elísson, bókmenntafræðiprófessor og umsjónarmaður loftslagsverkefnisins Earth 101, segir að afneitunin sé mikil hér á landi. 

„Við erum ekki að horfast í augu við stærsta málefni samtíðarinnar, það málefni sem ætti alltaf að vera í fyrsta sæti. Það ætti að koma á undan heilbrigðisumræðunni, á undan öllum félagsmálum, einfaldlega vegna þess að ef við leysum þetta má ekki þá fer allt hitt. Umræðan er ekki komin langt á veg hér á landi, hún er ekki orðin hluti af almennri grundvallarumræðu og þegar stjórnmálamenn taka sig til og gera það rétta þá er þeim refsað.“

Guðni Elísson prófessor á vorfundi Landsnets
 Mynd: landsnet.is
Guðni Elísson, prófessor.

„Þetta hreyfir ekki við okkur“

Hann segir að það sé erfitt að fá fólk til þess að taka þessi mál inn á sig. 

„Þetta er svo flókið málefni og það vinnur svolítið gegn okkur. Við skiljum kannski vandann að einhverju leyti en við eigum samt erfitt með að tengja okkur honum á tilfinningalegum nótum, þetta hreyfir ekki við okkur.“

Hann segir að vandinn virðist fjarlægur, loftslagsbreytingar gerist hægt á mannlegum mælikvarða þó þær gerist leifturhratt á vistfræðilegum mælikvarða. Hann segir áróður afneitunarsinna og hagsmunaaðila hafa neikvæð áhrif. Þá sé vandinn yfirþyrmandi og stór.

„Við sjáum engar leiðir út úr vandanum. Þarna eru líka stundarhagsmunir. Ef við horfumst í augu við vandann þýðir það að við þurfum svolítið að breyta okkar neyslumynstri. Við getum ekki bara hoppað upp í flugvél og gert allt sem við viljum.“

Bókmenntafræðingurinn segir að ef það ætti að búa til frásagnir til þess að hjálpa fólki að skynja og skilja vandann þyrfti að laga þær að persónuleika ólíkra samfélagshópa. 

„Hræddur einstaklingur leysir engin vandamál“

Snjólaug segir að þrátt fyrir að ógnin sé stór og alvarleg sé mikilvægt að ala ekki á ótta. 

„Hræddur einstaklingur leysir engin vandamál, ef við sitjum heima í kvíðakasti getum við ekki leyst vandamálin.“

Bæði Guðni og Snjólaug kannast við það að fólk beri það fyrir sig að gjörðir þess skipti litlu í stóra samhenginu. 

„Það að við séum svo lítil, við skiptum svo litlu máli í stóra samhenginu. Það held ég að sé tengt þessum tilfinningum, ótta og kvíða. Það er þarna sem við þurfum að skoða líka, er þetta rétt. Ef ég hugsa ekki um þetta því mér finnst nágranninn ekki vera að hugsa um þetta, get ég ekki verið fyrirmynd fyrir hann, getur ekki verið að hann fylgi í kjölfarið ef ég byrja, við erum alltaf að bíða eftir því að einhver annar taki af skarið,“

segir Snjólaug og vísar í línuna fleygu úr Sódómu Reykjavík: „Ég geri ekki neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir neinn.“

Svartipétur sífellt færður á milli

Guðni segir að sífellt sé verið að færa svartapétur á milli, í því kristallist vandi loftslagsumræðunnar. 

„Þau senda hann á milli og segja, hvers vegna ætti ég að fórna mínum hagsmunum ef enginn annar gerir það. Þetta gerist á plani milliríkjasamskipta en líka á okkar persónulega plani. Maður horfir á nágrannann sem er að fara til útlanda þrisvar á ári og hugsar, af hverju í ósköpunum ætti ég að sitja heima og telja sótsporin mín ef enginn annar gerir það.“

Hann bendir á að Íslendingar búi yfir sérstöðu, hreina orkan veiti okkur forskot fram yfir flestar þjóðir. Þó losun okkar skipti litlu í stóra samhenginu getum við sent táknræn skilaboð út í umheiminn. Orðið fyrsta þjóðin til þess að útrýma jarðefnaeldsneyti og taka upp nýja orkugjafa. 

Allir verði að gera sitt

Snjólaug segir að allir verði að gera sitt, einstaklingar, fyrirtæki og ríkisvaldið. Guðni segir þetta allt samtvinnað. Til að ná árangri í loftslagsmálum þurfi stórkostlegar stjórnvaldsaðgerðir, stjórnvöld þurfi að breyta ýmsum grunnkerfum í samfélaginu, huga að skipulagsmálum, orkumálum og skattlagningu og áhrifum efnahagslegra skammtímahvata. Almenningur þurfi þó líka að vera meðvitaður og halda stjórnvöldum við efnið. 

„Ef þetta brennur ekki innra með okkur þá munu stjórnmálamennirnir ekki gera neitt. Við höfum ekki gert stjórnmálamönnunum okkar kleift að taka þær ákvarðanir sem þarf að taka til að snúa blaðinu við.“