Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Fólk fái ekki tvöfalda skuldaleiðréttingu

17.09.2013 - 16:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir það sína skoðun að þeir sem þegar hafa fengið einhverja leiðréttingu á skuldamálum sínum, fái ekki leiðréttingu á sömu málum aftur þegar skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar liggur fyrir.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Frosta á Alþingi fyrr í dag hvort til stæði að draga leiðréttingar, eins og 110 % leiðina svokölluðu, frá fyrirhuguðum aðgerðum. Frosti sagði ekkert liggja fyrir en lýsti eigin skoðun. „Mér þætti réttlátt að menn nytu ekki tvisvar leiðréttingar heldur væri þetta hugsað til þess að jafna aðstöðu manna. Sumir hafa lent í því að fá leiðréttingu fyrir dómstólum, fyrir héraðsdómi eða Hæstarétti af því þeir voru með ólögleg lán. Vilja menn innifela þá líka, að þeir fái líka lækkun? Að sjálfsögðu ekki. Það er verið að jafna þarna skakka leikinn. Hafi menn þegar fengið einhverja leiðréttingu á forsendubrestinum á þurfa þeir ekki að fá hana aftur. Þetta er mín afstaða.“