
„Öll askan blés yfir Manila og yfir svæðið hérna sem fimmtán milljónir manna búa á. Það er náttúrulega mjög óþægilegt og með mjög fínni ösku sem er mjög hættulegt að anda að sér. Það eru allir komnir með grímu hérna og allavega aðbúnað ef fólk þarf að fara út,“ segir Bæring.
Stjórnvöld óttast að gríðarmikið sprengigos geti hafist þá og þegar. Samhæfingarskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum segja að rúmlega 450 þúsund manns búi innan skilgreinds hættusvæðis í nágrenni við fjallið.
„Það er verið núna að bjarga fólki í burtu og hreinsa út litla bæji og sveitaþorp og þar fram eftir götum. Þetta eru einhverjir tugþúsundir manna sem þarf að flytja í burtu og herinn er kominn í málið,“ segir Bæring.
Mikil röskun hefur verið á flugi og öðrum samgöngum síðan gosið hófst. Ekkert skólahald verður í dag og á morgun og lokað er hjá fyrirtækjum og stofnunum í námunda við fjallið.
„Fólk er mjög hrætt. Sérstaklega það sem býr þarna í hlíðunum vegna þess að það eru búnir að vera jarðskjálftar þarna núna. 75 jarðskjálftar á 24 klukkutímum. Ef það koma fleiri jarðskjálftar getur orðið hrun vegna þess að það er bratt þarna niður að,“ segir Bæring.