Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Fólk er ekki malbik“

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV/Landinn
Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar hafa samþykkt að segja sig frá samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Aðgerðirnar ættu þó að hafa óveruleg áhrif á sjúklinga, segir sjúkraþjálfari. Sjúkraþjálfarar vilja skýrari stefnu og svör um hvernig eigi að haga innkaupum í heilbrigðisþjónustu.

Sjúkraþjálfarar munu ekki starfa eftir útrunnum rammasamningi um sjúkraþjálfun frá og með þriðjudeginum 12. nóvember. Þetta var samþykkt á félagsfundi sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara sem var haldinn á mánudag.

Sjúkraþjálfarar eru þó tilbúnir að halda samskiptum við Sjúkratryggingar varðandi endurgreiðsluhluta sjúklinga áfram. „Að því gefnu að Sjúkratryggingar Íslands samþykki það að þá ættu skjólstæðingar ekki að finna mikið fyrir þessu,“ segir Unnur Pétursdóttir, formaður stjórnar Félags sjúkraþjálfara. Það bjóði sjúkraþjálfarar fyrst og fremst skjólstæðinga sinna vegna. Það sem breytist sé að sjúkraþjálfarar setji sér sínar eigin gjaldskrár, hlutur sjúklings gæti því breyst lítillega út frá því, að því gefnu að Sjúkratryggingar Íslands samþykki að halda rafrænum samskiptum áfram.

Engar verðlagsleiðréttingar

Rammasamningur sjúkraþjálfara við Sjúkratryggingar Íslands rann úr gildi þann 31. janúar og hefur verið framlengdur einhliða af Sjúkratryggingum Íslands án verðlagsleiðréttinga síðan þá. „Í hverjum mánuði sem líður tapa sjúkraþjálfarar stórum fjárhæðum og litlar vonir eru um að það fáist bætt,“ segir í tilkynningu frá Félagi sjúkraþjálfara. Unnur segir sjúkraþjálfara súra yfir því að hafa ekki fengið verðlagsleiðréttingu sem hefði átt að koma síðastliðið sumar. Þeir séu langþreyttir á ástandinu en það sé ekki síður vegna þess sem sé fram undan, það telji þeir algjörlega óaðgengilegt.

Segir ríkisvaldið ekki hafa unnið heimavinnuna sína

Í ágúst var sagt frá því að Sjúkratryggingar Íslands hafi falið Ríkiskaupum að bjóða út alla sjúkraþjálfun á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við lög um opinber innkaup sem samþykkt voru árið 2016. Þessu útboði mótmæltu sjúkraþjálfarar harðlega og í kjölfarið var ákveðið að fresta því fram í janúar. Í tilkynningunni segir að ekki sé verið að vinna að nauðsynlegum úrbótum á útboðinu.

Unnur segir ljóst að ríkisvaldið hafi ekki unnið heimavinnuna sína því lögin og framkvæmd þeirra séu afleit og illa undirbúið ferli. Þetta sé óvissuför sem sjúkraþjálfarar séu ekki tilbúnir í að taka þátt í né bera ábyrgð á. „Og þegar við fórum að kanna það hvernig þessum Evróputilskipunum hefur verið framfylgt á hinum Norðurlöndunum þá er það alveg ljóst að þau hafa farið aðra leið og komið sinni heilbrigðisþjónustu í rauninni í skjól gagnvart þessum lögum á einn eða annan hátt,“ segir Unnur.

Þurfi að endurskoða innkaupaferlið frá grunni

Sjúkraþjálfarar líti svo á að það þurfi miklu skýrari stefnu frá heilbrigðisyfirvöldum um hvernig haga beri innkaupum á heilbrigðisþjónustu. Þeir stígi nú til hliðar til að gefa Sjúkratryggingum og stjórnvöldum tækifæri og tíma til að endurskoða innkaupaferlið frá grunni. Endurskoða verði kröfur til þjónustunnar, gæðamat og fjárhæðir. Lögin séu fyrst og fremst miðuð við vörur, framkvæmdir og almenna þjónustu. Ekki viðkvæma og persónulega þjónustu við fólk líkt og heilbrigðisþjónusta sé.

„Í rauninni er verið að þrýsta okkur inn í útboð á sama hátt og Ríkiskaup bjóða út malbiksþjónustu. Fólk er ekki malbik og við höfnum því að viðkvæm heilbrigðisþjónusta sé sett í sama form og útboð á malbiksframkvæmdum. Við sjáum það bara ekki ganga upp,“ segir Unnur.