Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fólk á bannsvæði í Súðavík í nótt

15.01.2020 - 16:48
Myndir teknar með dróna.
 Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Í nótt var fólk í húsum í gamla þorpinu í Súðavík þar sem enginn á að vera á veturna. Eftir mannskæðu snjóflóðin sem urðu í Súðavík fyrir tuttugu og fimm árum var byggðin flutt. Þorpið var byggt upp að nýju á öruggum stað sem ekki er á skilgreindu snjóflóðasvæði.

Húsin í gamla þorpinu eru nýtt sem sumarhús og dvöl takmörkuð við 1. maí til 31. október. Þrátt fyrir þessar takmarkanir var fólk í húsunum í gær. Óvissustig hefur verið í gildi á norðanverðum Vestfjörðum. Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík, segir það samt hafa komið fyrir að fólk hafi verið í húsunum um vetur og þannig var það í nótt.  

Það fréttist af því að það væru tveir úti í gamla þorpi og eftir að Almannavarnir voru í sambandi við mig í nótt, sem sagt ofanflóðavarnir, var ákveðið að hafa samband og kanna það nánar. Í samstarfi við björgunarsveitina þá gerðum við ráðstafanir; höfðum samband og komum fólki í önnur hús.

Bragi segir að einhverjir hafi vitað af fólkinu í húsunum en ekki þeir sem hafa eitthvað með það að gera að geta sagt fólki hvar það má og má ekki vera. Þarna hafi verið eigendur að því hann telur. Hann segir að það megi ekki vera tabú ef fólk er að nýta þesar eignir; mjög erfitt sé að vakta það allan ársins hring og allan sólarhringinn. 

Það bara er eiginlega ekki gerlegt og verður eiginlega svolítið að spila á samvisku fólks, það hafi vit fyrir sér. Þetta snýst ekki eingöngu um öryggi þeirra sem eru þar.  Heldur líka hvort það þurfi að ráðstafa einhverjum mannskap til  þess að hafa eftirlit þegar svona ástand er uppi. 

Bragi telur tryggt að þarna sé enginn núna og í samstarfi við almannavarnir hafi það verið gefið út að engin atvinnustarfsemi yrði þar í dag. Í gamla hlutanum er atvinnuhúsnæði og frystihús en þar er enginn í dag.