Fokk skátarnir, ég ætla að fara að rappa

Mynd: Emmsjé Gauti/Magnús Leifsson / Emmsjé Gauti/Magnús Leifsson

Fokk skátarnir, ég ætla að fara að rappa

29.05.2018 - 08:25
Emmsjé Gauta, ættu flestir að kannast við enda er hann líklegast einn ástsælasti rappari landsins. Gauti er um þessar mundir á fullu að skipuleggja Íslandstúrinn sinn sem hefst 30. maí og auk þess er hann með þrjár plötur á leiðinni.

Gauti var mánudagsgestur Núllsins og fór vandlega yfir ferilinn, allt frá því að hann hann fékk rapparanafnið sitt á danskeppni í Seljaskóla, þangað til að hann var farinn að spila út um allt land.

Gauti hefur ekki alltaf verið sérstaklega sáttur með rapparanafnið sitt, en fyrst kom hann fram undir nafninu MC Gauti, það var í þá daga sem margir rapparar notuðu þetta forskeyti sem að þýðir Master of Ceremony eða Mic Controller. Hann íhugaði lengið að skipta og ætlaði meira að segja einu sinni að kalla sig MC Englaryk. „Ég vissi ekki á þeim tímapunkti að þetta orð væri til, hvað þá að þetta væri hardcore eiturlyf,“ segir hann og bætir við að pælingarnar á bak við nafnið hafi verið mjög grunnar.

Mynd með færslu
 Mynd: © Florian Trykowski - www.floriantrykowski.de

Eftir danskeppnina í Seljaskóla þar sem að hann rappaði með taktkjafti prufaði Gauti að fara í stúdíó og fór svo smám saman að sækjast í að gera rapptónlist. Hann var bæði í hljómsveitunum 32c og Skábræðrum áður en hann varð svo á endanum Emmsjé Gauti.

Hann tók líka þátt í Rímnaflæði þrisvar sinnum og þó svo að hann hafi aldrei unnið var hann valinn efnilegasti rapparinn í eitt skiptið. „Ég held að það hafi bara verið vegna þess að ég gleymdi textanum og fór að gráta á bak við,“ segir hann og hlær.

Spurður út í fyrirmyndir segist Gauti auðvitað mikið hafa hlustað á Rotweiler sem að áttu senuna á sínum tíma. En það var þegar hann heyrði lagið Ég geri það sem ég vil með Skyttunum í skátaútilegu sem að eitthvað small. „Ég var bara, fokk skátarnir, ég ætla að fara að rappa! Ég er samt enn þá skáti,“ bætir hann við.

„Ég trúi því að flestir geti gert það sem að þeir vilja gera. Það má bara ekki gefast upp.“

Og hann fór að rappa og er í dag búinn að rappa í heil 16 ár. Á þeim tíma hefur hann gefið út fjöldann allan af plötum og lögum. Það tók hann samt sem áður tíma að gera það að atvinnu sinni og á meðan reyndi hann að finna sig í öðru. Hann fór á listabraut í FB og prófaði bakarann í eina önn, svo dæmi séu tekin. „Maður var alltaf fastur í því að þetta væri bara hobbý, það er alltaf verið að mata fólk með því að svona dót sé bara hobbý,“ segir Gauti um rappið á þessum tíma. „Það var ekki fyrr en um tvítugt sem að maður áttar sig á því að maður gat spilað og fengið borgað fyrir það.“

Mynd með færslu
 Mynd: Emmsjé Gauti - Youtube
Emmsjé Gauti, Keli og Björn Valur verða á ferðinni um Ísland í sumar

Íslands túrinn 1313 mun felast í því að Emmsjé Gauti, ásamt plötusnúðnum Birni Val og trommaranum Kela, ferðast um landið á 13 dögum, 30. maí til 11. júní, og spila á nýjum stað á hverjum degi. Meðal áfangastaða hjá félögunum eru Hvolsvöllur, Vopnafjörður, Mývatn, Flatey og Sauðárkrókur.

Gauti er búinn að vera með hugmyndina í maganum í þrjú ár en upphaflega fólst hún í því að hann, Úlfur úlfur og Agent fresco myndu ferðast um landið á tíu dögum og búa til með fram því átta sjónvarpsþætti sem sýndir yrðu hálfu ári seinna. „Ég veit ekki hvernig hugmyndin fór úr átta þáttum á tíu dögum, sýndir hálfu ári seinna yfir í 13 daga og 13 þætti sýnda á meðan,“ segir Gauti en túrinn verður tekinn upp og gerðir þættir jafnóðum sem að sýndir verða á netinu, bæði á emmsje.is og visir.is.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Gauta í heild sinni í spilaranum hér að ofan.