Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flytja pósthúsið úr Pósthússtræti

22.12.2018 - 08:05
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Engin póstþjónusta verður í pósthúsinu við Pósthússtræti eftir 27. desember næstkomandi. Pósthúsið þar sameinast pósthúsinu við Eiðistorg sem verður einnig lokað en nýtt sameinað pósthús verður opnað daginn eftir, 28. desember, í húsnæði Hótel Sögu við Hagatorg.

Á nýja pósthúsinu verður póstþjónusta íbúa í Vesturbæ Reykjavíkur og á Seltjarnarnesi, í póstnúmerum 101, 107 og 170. Íbúum barst tilkynning um þetta í pósti í gær og frá þessu er einnig greint á vef Póstsins.

Þegar pósthúsinu í Pósthússtræti verður lokað verður það í fyrsta sinn í rúmlega öld sem ekkert pósthús verður í Pósthússtræti. Póstþjónustan hefur verið í sama húsi frá því á árum fyrri heimsstyrjaldar. Pósthús hafa þó verið enn lengur á þessum slóðum.

Pósthúsgata frá upphafi

Þegar flutningarnir voru fyrst kynntir í júlí á þessu ári sagði Guðjón Friðriksson sagnfræðingur í samtali við RÚV að Pósthússtræti hafi verið pósthúsgata frá upphafi. Pósthússtræti heitir eftir pósthúsinu sem rekið var í timburhúsi þar sem nú er Hótel Borg. Þar var pósthús á seinni hluta 19. aldar, frá 1872, og þar til núverandi pósthús var tekið í notkun. Gamla pósthúsið var síðar flutt í Skerjafjörð og þaðan að Brúnavegi og byggt við það. Fyrst vék húsið fyrir Hótel Borg og svo fyrir Reykjavíkurflugvelli.

„Það er búið að vera pósthús við þessa götu í 150 ár eða lengur,“ segir Guðjón. Hann segir að pósthúsið í Pósthússtræti hafi mjög sterkar sögulegar tengingar. „Það er svolítil synd að það skuli ekki vera lengur pósthús í hinum eina sanna miðbæ Reykjavíkur,“ segir Guðjón og bætir við: „Mér finnst dálítil synd að þetta gamla kennimerki Reykjavíkur skuli fara. Svo er þetta auðvitað pósthúsið – rautt og flott.“

Óhentugt húsnæði

Lengi hefur legið ljóst fyrir að húsnæðið í Pósthússtræti sé óhentugt fyrir nútíma póstþjónustu, segir í svari frá Póstinum við fyrirspurn fréttastofu í júlí. Aðgengi að húsinu sé með verra móti og það hafi bitnað á viðskiptavinum og starfsmönnum póstsins. Þannig hafi oft reynst erfitt að koma sendingum að húsnæðinu og bílastæðum fækkað til muna. Því hafi lengi verið leitað að hentugu húsnæði í eða við miðbæ Reykjavíkur. Nýja húsnæðið henti vel til starfseminnar og þar sé nóg af bílastæðum auk þess sem aðbúnaður starfsmanna verði betri.

Með breytingunum má segja að Pósthússtræti bætist í hóp gatna í Reykjavík sem ekki bera lengur nafn með rentu, svo sem Bankastrætis, Spítalastígs og Lækjargötu.

Vegna flutninga póstafgreiðslunnar verður pósthúsunum í Pósthússtræti og á Eiðistorgi lokað kl. 13 fimmtudaginn 27. desember.