Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flytja ekki inn sorp ef ólöglegt

08.03.2012 - 22:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Áformum um sorpinnflutning frá Bandaríkjunum er sjálfhætt reynist innflutningurinn vera ólögmætur, segir forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Útilokað sé að fara krókaleiðir með því að flytja sorpið í gegnum þriðja landið.

Bandaríska fyrirtækið Triumvirate Environmental hefur óskað eftir því að kaupa sorpbrennslustöðina Kölku og flytja hingað sorp til brennslu. Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, sagði í sjónvarpsfréttum í gær að alþjóðalög og samningum heimiluðu ekki innflutning á sorpi frá Bandaríkjunum.

Böðvar Jónsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, segir að þetta komi ekki svo mjög á óvart. Þetta hafi verið eitt að því sem hafi komið upp í umræðum um málið á bæjarstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag. Hann segir að það sé sjálfhætt með þetta mál ef þetta samrýmist ekki lögum. Þá verði ekki farið lengra með það. Hann telur alveg útilokað að fara þá leið til dæmis að flytja sorpið til annars lands og síðan til Íslands. Ekki eigi að fara slíkar krókaleiðir.

Hjá KPMG fengust þau svör í dag að um væri að ræða sorp frá Kanada. Það er ekki í samræmi við fundargerð Kölku frá í febrúar. Þar svaraði eigandi Triumvirate spurningum bæjarfulltrúa, meðal annars hvers vegna það væri ódýrara að koma með úrgang til Íslands og hvers vegna hann teldi að verð á sorpeyðingu myndi ekki hækka komist stöðin í einkaeigu. Því var svarað að með auknum viðskiptum myndu aukast möguleikar á því að lækka kostnað. Þá kom einnig fram að erfitt væri að byggja nýjar brennslustöðvar í Bandaríkjunum og þar væri verð mjög hátt.

Af þeim úrgangi sem Triumvirate hefur áhuga á að flytja hingað skilgreinir fyrirtækið 50% sem hættulausan úrgang og 37% er eldfimir vökvar. Þá er 3% skilgreint sem eitur.