Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flýta byggingu áfangaheimilis Kvennaathvarfsins

27.03.2020 - 01:18
Kvennaathvarfið bæklingur 2016
 Mynd: RÚV
100 milljónum króna verður varið til þess að flýta byggingu nýs áfangaheimilis Kvennaathvarfsins. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Framlagið er innan þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu vegna COVID-19 faraldursins.

Tillagan var til umfjöllunar á Alþingi í gær og var færð til fjármálanefndar til umræðu. 

Átján leiguíbúðir verða reistar fyrir skjólstæðinga Kvennaathvarfsins sem hægt verður að leigja til ákveðins tíma. Framlag ríkisins bætist við þær fjárhæðir sem safnað var í þjóðarátakinu Á allra vörum árið 2017.

Á vef Stjórnarráðsins er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að heimilið sé því miður ekki griðastaður fyrir alla. „Bæði innlend og alþjóðleg mannréttindasamtök hvetja stjórnvöld til að bregðast við hættu á auknu heimilisofbeldi. Með því að flýta byggingu áfangaheimilis Kvennaathvarfsins er stigið mikilvægt skref til þess og athvarfið fær svigrúm til að veita fleirum þjónustu," er haft eftir Katrínu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV