Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fluttur með sjúkraflugi frá Eyjum eftir árás

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ein alvarleg líkamsárás var tilkynnt til lögreglunnar í Vestmannaeyjum um kvöldmatarleytið í gærkvöld og var þolandinn fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur með innvortis meiðsl. Árásin hafði raunar átt sér stað nóttina áður – aðfaranótt sunnudags – en þolandinn leitaði sér ekki aðhlynningar fyrr en í gærkvöld. Lögreglu tókst að hafa uppi á gerandanum sem játaði sök. Ekki er grunur um að vopni hafi verið beitt.

Tilkynnt var um þrjár líkamsárásir til viðbótar í Eyjum í nótt en Jóhannes Ólafsson yfirlögregluþjónn segir að þær hafi verið minniháttar og óvíst hvort lagðar verði fram kærur vegna þeirra.

Einn gisti fangageymslur í nótt vegna ölvunaróspekta og alls hafa 35 fíkniefnamál komið upp á Þjóðhátíð um helgina – fá bættust við síðustu nóttina. Flest eru málin minniháttar en Jóhannes segir að í tveimur eða þremur hafi verið grunur um sölu og einhverjir sölumannanna hafi játað sök.

Spurður hvort einhver kynferðisbrotamál hafi komið upp segir Jóhannes að lögregla muni greina frá því ef ástæða þykir til.

Hátt í 400 tjaldgestir flúðu rokið og rigninguna inn í íþróttahúsið í Eyjum í nótt, flestir af efra tjaldstæðinu við Áshamar. Um þessar mundir streymir fólk niður á bryggju og út á flugvöll, að sögn Jóhannesar. Enn er strekkingsvindur en úrkomulaust.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV