Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Flúor rétt undir hættumörkum

14.01.2014 - 23:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Flúor í sauðfé frá bænum Sléttu í Reyðarfirði mældist rétt undir hættumörkum í haust. Þetta sýnir ný skýrsla um vöktun flúors í Reyðafirði. Sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir niðurstöðuna áhyggjuefni.

Í haust voru tekin sýni úr hausum af fé frá bæjunum Sléttu og Þernunesi í Reyðarfirði í grennd við álver Alcoa. Ekkert bendir til flúoreitunar en þó mældist hátt flúormagn í kjálkabeinum í fullorðnu fé og lömbum frá Sléttu. Gildin höfðu hækkað nokkuð samanborið við niðurstöður ársins 2012, en meðalaldur kindanna var aðeins hærri í ár. Í skýrslunni segir að niðurstöðurnar gefi til kynna að hætta sé á flúorskemmdum í fé frá bænum. 

„Maður hefði búist við því að sjá lægri tölur og þess vegna eru þessar tölur háar og gefa okkkur  tilefni til að skoða málið betur, fara í rauninni yfir betur hvar við erum að taka sýni af kindum og velja kindurnar betur sem eru teknar í mælingu", segir Sigríður Kristjánsdóttir, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun.

Mælingin er hluti af umhverfisvöktun álversins, þar sem flúor er meðal annars mælt í grasi, heyi, dýrabeinum og víðar. Sigríður segir að þessar tölur gefi skýrari mynd af menguninni. Hættumörk flúors í grasbítum eru á bilinu 4.000-6.000 míkrógrömm í hverju grammi af beinösku. Áður en álverið hóf starfsemi var þetta hlutfall um 800 í kindum í firðinum.

Í haust mældist hlutfallið yfir 3.000 í þremur kindum frá Sléttu og í einni sex vetra kind var það 3.900 eða rétt undir hættumörkum. Skoðun dýralæknis leiddi hins vegar ekki í ljós nein ummerki um að flúorinn hefði haft bein áhrif á féð en þörf sé á frekari rannsóknum. 

„Við höfum áhyggjur af þessu og við þurfum að fylgjast virkilega vel með þessu og skoða þetta áfram", segir Sigríður.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir upplýsingafulltrúi Alcoa segir að gildin séu hærri en fyrirtækið hefði kosið og það vilji gera betur. Í dag hafi verið fundað með starfsmönnum Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar og samstaða orðið um að gera frekari rannsóknir.