Flundra ógnar bleikjustofnum

06.12.2010 - 10:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Bleikjan, Salvelinus alpinus, er að margra áliti einhver besti matfiskur sem völ er á og sportveiðimönnum leiðist heldur ekki að glíma við bleikjuna í ám og vötnum. Nú bregður hinsvegar þannig við að bleikjustofninn á undir högg að sækja. Á vatnasvæði Hvítár í Borgarfirði var ársveiðin um fjögur þúsund bleikjur fyrir örfáum árum en hefur hrapað niður í aðeins fjögur hundruð fiska.

Sigurður Már Einarsson, forstöðumaður Veiðimálastofnunar á Vesturlandi, segir réttast að tala um hrun í þessu sambandi. Ráðist hafi verið í umfangsmiklar rannsóknir á bleikjustofninum á vatnasvæði Hvítár. Rannsóknirnar byggjast á því að starfsmenn Veiðimálastofnunar koma fyrir senditæki í tugum fiska en það er gert með einfaldri skurðaðgerð. Merkinu er komið fyrir í kviðarholinu en loftnetið er hinsvegar utaná liggjandi en háir fiskinum að sögn ekki neitt. Síðan eru fiskifræðingarnir með móttökutæki sem nema sendingar frá hverjum merktum fiski og hver fiskur hefur sína tíðni.


Sigurður Már segir að vegna þess hve hefur hlýnað sé ný tegund komin í samkeppni við bleikjuna. Hann talar um ,,innrás“ flundru eða ósalúru í íslenska náttúru en flundran stundar afrán frá bleikju og laxi. Sigurður segist hafa áhyggjur af silungastofnunum enda séu þeir á þeim svæðum sem flundran sé mest á. Hinsvegar hafi hann minni áhyggjur af laxinum enda haldi flundran sig neðst í ánum og þar séu slökustu skilyrðin fyrir laxinn. Fjallað var um málið í Landanum á sunnudagskvöldið. Hér má horfa á þáttinn.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi