Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Flugvöllur á Hólmsheiði myndi nýtast illa

21.03.2013 - 13:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Flugvöllur á Hólmsheiði yrði ónothæfur í ríflega 28 daga á ári, samkvæmt nýrri skýrslu Veðurstofunnar. Nýtingin yrði 92 prósent. Enginn myndi hanna miðstöð áætlunarflugs sem nýttist svo illa, að mati Isavia.

Isavia lét Veðurstofuna reikna út hversu vel flugvöllur á Hólmsheiði myndi nýtast fyrir innanlandsflugið. Þar var meðal annars tekið tillit til krafna Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um hámarks hliðarvind og einnig ókyrrð og almenn veðurskilyrði. Niðurstaðan er sú að nýting flugvallarins yrði tæp 93 prósent. Það þýðir að flugvöllurinn yrði ónothæfur vegna veðurs í rúmlega 28 daga á ári. Reykjavíkurflugvöllur er að jafnaði ónæthæfur í einn til tvo daga á ári vegna veðurs. Þetta er töluvert lægri nýting en verkfræðistofan Mannvit taldi út frá mælingum Veðurstofunnar. Þar var ekki tekið tillit til ókyrrðar, aðeins veðurfars, skyggnis og skýjahæðar.

Í skýrslunni kemur fram að veðurskilyrði séu almennt verri - meiri úrkoma, verra skyggni, meiri raki og hiti oftar undir frostmarki. Að auki yrði önnur brautin eingöngu sjónflugsbraut vegna nálægðar við Esjuna. Hægt er að fljúga blindflug á öllum flugbrautum Reykjavíkurflugvallar. Þá auki nálægð við fjöll líkur á umtalsverðri ókyrrð. Einnig er bent á að Hólmsheiði geti ekki orðið varaflugvöllur fyrir millilandaflug á sama hátt og Reykjavíkurflugvöllur.

Þá er einnig bent á að rekstur flugvallarins á Hólmsheiði yrði kostnaðarsamari, til dæmis yrðu hálkuvarnir dýrari.

Að lokum er bent á að færa þyrfti spennustöð, háspennulínu og heitavatnsæðar frá Nesjavöllum, sem þýddi milljarða króna í aukinn kostnað.