Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Flugvirkjar boða ótímabundið verkfall

08.12.2017 - 18:18
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Félagar í Flugvirkjafélagi Íslands sem starfa hjá Icelandair hafa boðað til ótímabundins verkfalls frá klukkan sex að morgni 17. desember. Í tilkynningu frá Icelandair til Kauphallarinnar kemur fram að viðræður standi enn yfir milli Icelandair og Flugvirkjafélagsins.

Óskar Einarsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, segir að niðurstöður úr rafrænni kosningu félagsmanna liggi fyrir og vinnustöðvun hafi verið boðuð. Á mánudagskvöld verði almennur upplýsingafundur fyrir félagsmenn. „Við erum búnir að ræða við Icelandair í nærri sex mánuði,“ segir hann. Viðræðurnar þokist ekki nógu hratt. „Við náum ekki saman um það sem við höfum lagt til og þeir bjóða okkur ekki neitt í samræmi við það,“ segir Óskar og vill ekki ræða kröfur félagsins frekar að svo stöddu. „Við kynnum þetta fyrir félagsmönnum fyrst.“

Óskar segir að mögulega verði samningafundur um helgina. „Mig grunar að það verði um helgina,“ segir hann. 

Í tilkynningu Icelandair til Kauphallarinnar kemur fram að náist ekki samkomulag fyrir boðaðar verkfallsaðgerðir kunni flugáætlun Icelandair að raskast. Óvíst sé hvaða áhrif þær kunni að hafa á afkomu Icelandair Group hf.
 

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV