Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Flugvél brotlenti suður af Hafnarfirði

12.11.2015 - 16:27
Mynd með færslu
 Mynd: Sveinn H. Guðmarsson - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Sveinn H. Guðmarsson - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Sveinn H. Guðmarsson - RÚV
Flugvél með tvo innanborðs brotlenti í hrauninu suður af Hafnarfirði, vestan Kleifarvatns, á fjórða tímanum í dag. Neyðarkall barst frá vélinni. Þyrla Landhelgisgæslunnar, sjúkrabílar, lögregla og björgunarsveitarmenn voru kallaðir út. Búið er að finna flugvélina.

Bíll svæðisstjórnstöðvar björgunarsveitanna er kominn að Bláfjallaafleggjaranum Hafnarfjarðarmegin. Þar voru fyrir þrír sjúkrabílar, slökkviliðsbíll og lögreglubíll.

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur farið nokkrar ferðir á milli gatnamótanna og slysstaðar. Fyrst var farið með tæknideild lögreglunnar og búnað hennar, síðan með björgunarsveitarmenn og loks rannsakendur frá Sannsóknarnefnd samgönguslysa. Búist er við að störf á slysstað standi yfir fram á kvöld. Þar er farið að skyggja og beðið eftir ljósum til að lýsa upp vettvanginn.

Uppfært kl. 16:47 Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér tilkynningu um slysið. Hún er svohljóðandi:

Lítilli flugvél hlekktist á í flugi skammt sunnan Hafnarfjarðar um kaffileytið í dag, en tilkynning um slysið barst lögreglu kl. 15.10. Fjölmennt lið björgunaraðila var sent á vettvang og fannst flugvélin tæpum hálftima síðar. Ekki er unnt að veita frekari upplýsingar um slysið að svo stöddu.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV