Flugumaður ræddur á Alþingi

17.05.2011 - 18:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segist telja að Ríkislögreglustjóri segi satt og rétt frá í skýrslu sinni, að engar heimildir séu til fyrir því hjá embættinu að flugumaður bresku lögreglunnar hafi verið að störfum við Kárahnjúka árið 2005. Þó virðast upplýsingar úr búðum mótmælenda þar hafa farið á milli lögreglunnar hér og úti.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði á Alþingi í dag að í skýrslu Ríkislögreglustjóra kæmi nánast ekkert fram af því sem kallað hefði verið eftir. Hvort íslensk lögregluyfirvöld hefðu vitað af starfsemi flugumannsins Mark Kennedy, sem beitt hefði sér innan umhverfisverndarsamtaka árið 2005. Sem einnig hefði gerst brotlegur sem lögreglumaður með því að efna til líkamlegs sambands við eina af ungu stúlkunum sem voru þátttakendur í þessum mótmælabúðum


Birgitta spurði hvort ekki væri tilefni til þess að þetta yrði að utanríkismáli, þar sem írsk og þýsk yfirvöld hefðu vitað af þessum manni í sama hlutverki og hann var hér og greint frá því.


Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði að samkvæmt skýrslu Ríkislögreglustjóra væru engin gögn eða heimildir sem bentu til þess að Mark Kennedy hefði verið hér með vitund lögreglunnar eða að beiðni hennar, en jafnframt væri sagt í skýrslunni að væri ekki hægt að útiloka að svo hefði verið enda kæmi fram í skýrslunni að upplýsingar gengu á milli.


Upplýsingar gengu á milli lögregluyfirvalda hér og erlendis um mótmælendur við Kárahnjúka. Ögmundur sagði að lokum að ekki stæði til að gera þetta mál að utanríkismáli.