Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flugmennirnir grunaðir um vanrækslu

06.02.2020 - 13:15
Mynd: EPA-EFE / EPA
Flugmenn farþegaþotu sem rann út af flugbraut á Sabiha Gökçen flugvellinum við Istanbúl í Tyrklandi í gærkvöld eru grunaðir um að hafa valdið slysinu með vanrækslu. Þotan brotnaði í þrennt þegar hún stöðvaðist sextíu metrum frá brautarendanum. Hún var að koma frá borginni Izmir í Tyrklandi með 174 farþega og sex manna áhöfn.

Þrír farþegar létust og nánast allir aðrir um borð slösuðust, þar á meðal flugmennirnir. Þeir verða yfirheyrðir þegar þeir verða útskrifaðir af sjúkrahúsi, að sögn tyrkneskra fjölmiðla.

Þotan lenti harkalega í vondu veðri, hvassviðri og rigningu, rann út af brautinni og féll síðan nokkra tugi metra niður bratta brekku, þar sem hún endaði í þrennu lagi. Þotan var í eigu tyrkneska lággjaldaflugfélagsins Pegasus Airlines. Að sögn talsmanns þess hafa 56 farþegar þegar verið útskrifaðir af sjúkrahúsi.