Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Flugfreyjur undirrita kjarasamning

05.10.2011 - 20:25
Flugfreyjufélag Íslands og Icelandair hafa undirritað nýjan kjarasamning, en fyrri samningur samningsaðila var felldur í atkvæðagreiðslu. Boðuðum verkföllum hefur því verið frestað um hálfan mánuð, þannig að fyrsta verkfallið hefst 24. október komi til þess.

Nýi samningurinn var undirritaður hjá Ríkissáttasemjara klukkan átta í kvöld. Sigrún Jónsdóttir formaður Flugfreyjufélagsins og samninganefndar félagsins segir nýja samninginn hafa tekið töluverðum breytingum frá fyrri samningi. Hún segist ganga sátt frá samningaborði og vonar að félagsmenn sínir verði það líka. Stefnt sé að því að kynna nýja samninginn félagsmönnum strax eftir helgi.