Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Flugfreyjur semja - verkfalli aflýst

26.01.2017 - 23:40
Mynd: RÚV / RÚV
Flugfreyjur hjá Flugfélagi Íslands skrifuðu undir nýjan kjarasamning á tólfta tímanum í kvöld. Fundur í kjaradeilu þeirra hófst klukkan eitt í dag og stóð nánast sleitulaust þar til skrifað var undir. Verkfalli flugfreyja hefur því verið aflýst en til stóð að það stæði í þrjá sólarhringa og hefði þá haft áhrif á ferðir um fimmtán hundruð farþega.

Kjarasamningur Flugfreyjufélags Íslands og Flugfélags Íslands rann út um áramótin 2015/2016. Þær hafa því verið samningslausar í rúmt ár. Á þeim tíma hafa þó tvívegis náðst samningar milli félaganna en í bæði skiptin voru þeir samningar felldir í atkvæðagreiðslu.

Félagar í Flugfreyjufélagi Íslands samþykktu með þremur fjórðu hlutum atkvæða að boða verkfall ef ekki næðust samningar. Þriggja daga verkfall átti að hefjast á morgun en ótímabundið þann 6. febrúar.  Verkfallið hefði náð til alls innanlandsflugs á vegum Flugfélags Íslands auk flugs til Grænlands og Skotlands.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV