Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Flugeldamengun á pari við náttúruhamfarir

28.12.2017 - 14:22
Mynd með færslu
 Mynd: ruv.is
Mengun af flugeldum um áramót getur orðið hundraðfalt hærra en æskilegt er. Í fyrra fór mengun upp í 1500 til 2500 míkrógrömm á rúmmetra sem er styrkur á stærðargráðu náttúruhamfara, líkt og þegar eldfjallaaska berst til Reykjavíkur. Þetta kemur fram í svari Vísindavefsins við spurningunni „Kemur ekki gífurleg mengun af öllum þessum flugeldum um áramótin?“

Í svarinu segir að samfélagslegar breytingar síðastliðna áratugi, eins og fólksfjölgun, þétting byggðar og aukin velmegun, lýsir sér meðal annars í því að magn innfluttra flugelda hefur fjórfaldast á 20 árum og mengun því aukist.

Þar segir einnig að svifryk frá flugeldum innihaldi hættuleg efni líkt og þungmálma. Samkvæmt útreikningum Umhverfisstofnunar samsvarar heildarlosun flugelda á þungmálmum eins og blýi, kopar, sinki, krómi mögulega allt að 10-30% af losun á þessum efnum á ársgrundvelli fyrir allt landið árið 2015. 

Þungmálmarnir brotni ekki niður og verði því eftir í umhverfinu. „Þeir geta sest í jarðveg og flætt með ofanvatni í vatn nálægt uppsprettu, sem er oftar en ekki í íbúðarhverfum og almenningsgörðum, eða borist langar vegalengdir með vindum.“